Espergærde. Sorgarmars í pósti

Mér til nokkurrar undrunar barst mér póstsending í gær. Pakkapóstur merktur mér er í sjálfu sér ekki óalgengur á heimili mitt í  Espergærde og ekki undrunarefni; ekkert til að kippa sér upp yfir. Ég nefni þetta samt hér því það sem vakti undrun mína (og gleði) var innihald sendingarinnar. Þótt umslagið sjálft væri fagmannlega merkt viðtakanda var ekkert sem gaf til kynna hver sendandinn væri. Í ljós kom þegar ég svo opnaði pakkann – því þetta var frekar pakki en umslag – snotur bók.

Inni í póstumbúðunum hvíldi þessi litla, fallega bók, með rauðvínsrauða kápu. Titilinn Sorgarmarsinn var ritaður með litlum, ljósgulum bókstöfum, en höfundarnafnið, Gyrðir Elíasson, var prentað með ögn stærra letri. Þótt ég bæði skoðaði saurblöð, rýndi í titilsíður bókarinnar og leitaði af mér allan grun í pakkanum, var ekkert sem gaf til kynna hver gæti hafa sent mér bókina.

Ég velti fyrir mér hvaða núlifandi persóna hefði viljað færa mér þessa bók, nákvæmlega þessa skáldsögu. Ekki komu mér aðrir í hug en forlagið Dimma (útgefandi bókarinnar) – sem ég hef stundum keypt bækur af  – eða sjálfur höfundurinn, Gyrðir Elíasson. Hann hefur alla tíð borið hag minn mjög fyrir brjósti. En að hann gengi svo langt að senda mér, óumbeðinn, bók sína, og borga offjár í sendingarkostnað fannst mér svolítið mikið í lagt. Sendingin gladdi að minnsta kosti mitt hjarta.

Ég veit sem sagt ekki hverjum ég á að þakka. Ef sendandi bókarinnar les þessi orð færi ég hér með honum/henni mínar bestu þakkir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.