Espergærde. Áreittur af „Landssambandi fyrir velferð vangefinna ökumanna“

Það er mér enn ráðgáta hver sendi mér þessa fínu bókasendingu sem ég fékk með póstinum í fyrradag. Enginn hefur enn gefið sig fram og gengist við póstsendingunni. En ekkert er við því að gera.

Í gærmorgun fékk ég SMS frá félaga mínum sem sagðist vera búinn að skipuleggja það sem hann kallaði „surprise friday“ og hann hafði séð fyrir sér að lestarstöðin, skrifstofa mín, yrði vettvangur þessarar uppákomu. Ég ætti að mæta klukkan 7:30 og vera helst klæddur í íþróttaföt. Þegar ég kom lallandi í morgunmyrkrinu á mínum ósamstæða íþróttagalla beið mín hópur fólks eða sex manns sem var tilbúið að taka þátt í surprise-friday-atburðinum. Félagi minn hafði ráðið til sín þjálfara í bardagaíþrótt til að þjálfa okkur 7 blábjánana. Þetta var auðvitað fyndin uppákoma og verður hér eftir surprise friday á hverjum föstudegi. OG í dag er ég helaumur um allan líkamann.

Ég fékk svo uppáhringingu í gærkvöldi þar sem mér voru boðuð þau válegu tíðindi að Sigurður Svavarsson útgefandi væri allur. Mér varð auðvitað illa brugðið. Ég hef þekkt Sigga lengi og mér finnst fregnir af andláti hans mjög sorglegar. Ég á margar góðar minningar af samskiptum mínum við Sigga.

ps  Ég er ekki sérlega löghlýðinn og sé frekar  lögin sem almenna leiðbeiningu um góða hegðun. Ég geri hins vegar nokkurn veginn það sem mér finnst rétt, ég angra ekki aðra eða geng á rétt þeirra og skapa ekki óþarfa hættu. Ég legg til dæmis stundum ólöglega. Í gær fékk ég áminningu frá löghlýðnum borgara, frá einhverjum sem tekur lögin alvarlegra en ég.

 

Áminningin var í formi lítils, rauðs nafnspjalds sem var sett á rúðuþurrku bílsins míns sem var frjálslega lagt  fyrir framan skrifstofuna mína. Bíllinn var svo sem ekki fyrir neinum, enginn þurfti að verða fyrir óþægindum af því hvernig ég lagði, en það er bara ekki löglegt að leggja bílnum þarna. Á nafnspjaldinu stendur. „Þú leggur bílnum þínum glæsilega! Velkominn í félagið.“ Undirritað af Landssambandi fyrir velferð vangefinna ökumanna.

pps ég er enn að lesa Brooklyn – fín bók – og ég hef því ekki komist í að lesa þær íslensku bækur sem mér hafa borist.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.