Espergærde. Hefði ég verið hestur.

Ég kann vel við fólk sem segir sannleikann, sérstaklega nú á þessum miklu ritskoðunartímum þar sem erfiðara er að tjá það sem er satt en það sem telst rétt. Með öðrum orðum það er auðveldara að segja það sem telst rétt en að segja sannleikann: hið sanna.

Mér hefur undanfarna daga verið hugsað til samtals sem hinn góði maður Eiríkur Guðmundsson átti við blaðamann. Samtalið las ég um helgina og nú er kominn þriðjudagur og ég velti þessu samtali enn fyrir mér. Samtal er kannski ekki rétta orðið því þetta var í raun eintal Eiríks og blaðamaðurinn, sem átti að vera hinn aðili samtalsins, var eins og hækja sem Eiríkur studdist við á meðan hann hrópaði í gjallarhornið. „Skáldskapur er hættulegasti hlutur í heimi. Hann er svo hættulegur að það ætti enginn að koma nálægt honum, og helst ekki lesa alvöru skáldskap.“

Ég held að Eiríkur vilji segja satt, langi að segja satt, en blaðaviðtal rétt fyrir útgáfu bókar er bara ekki rétti tíminn til annars en að segja það sem telst rétt.

Ég veit svo sem ekki hvað ég er að röfla um þetta. Fyrirgefðu mér, Eiríkur. Ég skrifa dagbók. Það kannski bara of snemma dags, enn grúfir náttmyrkur yfir heiminum, og ég læt bara orðin flæða út úr mér án þess að hugsa svo mikið sem eitt sekúndubrot. Mig langar líka að segja satt.

Í gær var ég aflífaður, svo ég tali nú einnig í gjallarhorn. Ég get gleymt að spila fótbolta aftur, sagði þetta fína þriggja manna sérfræðingaráð sem kom saman í gær til að skoða ökklann á mér. Hefði ég verið hestur hefði ég verið skotinn á staðnum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.