Espergærde. Að ganga óstuddur í skóm úr gervileðri

Þegar ég haltraði hingað á skrifstofuna  í morgun (ég segi sennilega upp leigusamningi skrifstofuplássins í dag) mætti ég tveimur mönnum sem vöktu undarlega neikvæð viðbrögð innra með mér. Sennilega er ég bara í vondu skapi því venjulega kippi ég mér ekki upp við svona lagað.

  1. Fyrsti maður kom hjólandi á eftir syni sínum. Þeir voru á leið í skólann – þ.e. drengurinn til að setjast á skólabekk og faðirinn hjólaði með til að tryggja að sonurinn hefði það gott á leið sinni í skólann. Báðir höfðu þeir hjólahjálma á höfði en faðirinn bar gleraugu á nefinu. Sjónglerin voru regnvot í rigningunni. Ég gekk á móti þeim. Þegar við mættumst námu feðgarnir staðar og biðu þess að geta tekið beygju í átt til skólans. Ég fylgdist með hvernig faðirinn lét tærnar nema við jörðina, niður á regnvott malbikið til að halda jafnvægi á hjólinu. Ég horfði á skóna hans og þeir fóru í taugarnar á mér. Svartir, ljótir leðurskór. Leðrið líktist plasti, kannski var þetta eitthvað gervileður. En skórnir fóru í taugarnar á mér.
  2. Annar maður. Ég gekk áfram – gekk  endurtek ég en þetta kallast varla ganga þetta hökt mitt á einum og hálfum fæti. Á mótum Lindevej og Jernbaneallé þar sem ég beygði til hægri mætti ég tveimur eldri herramönnum á göngu; mönnum á virðulegum aldri, eins og stundum er sagt. Annar þeirra studdist við eina hækju – hækju búna til úr einhverri járntegund – en virtist ekki  hafa sérstök not fyrir hana. Eins og hækjan væri óþörf í sjálfu sér en var tekin með í göngutúrinn. Þetta fór líka í taugarnar á mér. Af hverju notar þessi maður óþörf hjálpartæki þegar hann getur gengið óstuddur.

Svona er nú skapið í dag, fullkomlega óþolandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.