Espergærde. Tímabil afmarkað

Fyrsti nóvember. Fimmtudagurinn fyrsti nóvember og afmælisdagurinn hans Davíðs. Sá hefur hlakkað til afmælisdagsins. Þrettán ára. En litli unglingurinn er svo sem ekki mikill unglingur enn. Nú er hann búinn að taka upp pakkana sína – hann var glaður – og er hann farinn í skólann. Ég er búinn að taka til og ganga frá í eldhúsinu eftir afmælismorgunmatinn.

IMG_2787

Ég er líka búinn að ganga minn göngutúr upp á skrifstofu. Það tók 14 mínútur í dag. Það var logn, laufin bærðust ekki einu sinni á trjánum og morgunsólin skein á húsin. Það fannst mér fallegt. Ég mætti bara einum manni á leiðinni til vinnu, hann var niðurlútur og bauð ekki  góðan daginn.

Strax í sturtunni í morgun varð mér hugsað til hvítu rottnanna sem ég passaði í menntaskóla. Þær voru tilraunarottur, í búri  og hluti af sálfræðinámskeiði sem ég sótti. Ég passaði þær alltof vel, svo vel að kennarinn minn varð hissa og undrandi og furðaði sig og horfði rannsakandi á mig þegar ég sagði honum að ég hefði komið upp í skólann bæði á laugardegi og sunnudegi til að gefa þeim að borða. Skólinn var auðvitað læstur snemma á helgarmorgnum (ég þurfti að banka upp á hjá húsverðinum til að fá hann til að opna fyrir mig). Ég var ekki í takti við neinn eða neitt í menntaskóla svo það var alveg í samræmi við allt annað að ég tók rottupössun alltof alvarlega. En ég kenndi rottunum að ýta á slá til að fá mat. Það er ekki erfitt að kenna mönnum og dýrum að ýta á slá til að fá verðlaun. Thumbs up. Að þessu tilefni gerði ég tvennt í morgun 1) ég tók sjálfsmynd

IMG_2783

og 2) á skrifstofunni tók ég rækilega til þegar ég kom. Þurrkaði af borðum, henti óþörfum pappírum í ruslið og svona. Undir tiltektinni léku Blonde Redhead á fullum styrk. Yo!

Ný tímaskeið eru alltaf afmörkuð með myndatöku og tiltekt; taka mynd, taka til.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.