Espergærde. Hinar andstæðu fylkingar

Ég náði að æsa mig pínulítið yfir morgunverðarborðinu í morgun áður en ég mætti í svokallaðan „surprise fredag“ hér á lestarstöðinni klukka hálfátta. Þessi misserin fer sú tilhneiging fólks töluvert fyrir brjóstið á mér að vilja skipta heiminum endalaust upp í andstæðar fylkingar. Sérstaklega er heiminum nú skipt upp í hatrammar fylkingarnar karla og kvenna. Ég sé bara ekki heiminn svona. Þetta er of svart og hvítt fyrir mér – svo ég grípi til annarrar andstæðu, nú úr heimi litanna.. Ég las nefnilega viðtal í morgun við rithöfund sem sagði sem svo að það lenti alltaf á herðum kvenna að byggja aftur upp það sem eyðilagt hafi verið í stríði.
„Já,“ hugsaði ég. „Ætli þetta sé rétt?“ Ég þekki ekki uppbyggingarstarf eftir stríð af eigin raun, og þekki því ekki alveg þá mekkanisma sem eru að verki þegar land, þjóð, borgir, fjölskyldur og fólk er endurbyggt eftir eyðileggjandi hamfarir, en ég leyfi mér að efast um að enduruppbyggingin, bæði í sinni þrengstu og sinni víðustu merkingu, lendi eingöngu á herðum kvenna.  Ég efast ekki um mikilvægan þátt kvenna í enduruppbyggingu, en ég efa heldur ekki að þáttur karla hafi mikla þýðingu. Og það er heldur bara engin ástæða til upphefja annað kynið á kostnað hins, það gerir engan betri og allra síst heiminn. Þannig hugsaði ég í morgun.

Ég náði líka að æsa mig í gær (meira hvað ég er æstur þessa dagana). Í gær æsti ég mig inni í sjálfum mér því ég hafði heyrt að ágætur listamaður hefði neitað að koma í viðtal í fjölmiðli (Kastljósi) sem hafði gefið listaverki hans neikvæða dóma. Hvaða bjánaskapur er nú það? (þ.e. að neita að mæta). En ég man líka eftir umræðu um að meina Jóni Viðari aðgang að Þjóðleikhúsinu því hann hafði verið óánægður með leiksýningu og tjáð sig um það opinberlega, kannski á of harkalegan hátt. En þessi nýja tegund ritskoðunar fer nokkuð mikið í taugarnar á mér. Fólki skal refsað fyrir að segja skoðanir sínar, þ.e.a.s  ef þær eru ekki þóknanlegar.

ps. surprise fredag eins og dagskráin heitir er haldin hér á hverjum föstudegi milli 7:30-8:30 á lestarstöðinni þar sem skrifstofa mín er. Í dag var hinn óvænti gestur þjálfari í pilatesæfingum. Það tók á.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.