„Kæri vinur,“ hófst bréf sem mér barst í gærkvöldi eftir að ég hafði lognast út af með lesgleraugun á nefinu og iPadin í rúminu. „Þú getur litið á það sem hið mesta fagnaðarefni að rata í ýmsar raunir. Það vekur og eflir þolgæði.“ Þetta er líklega alveg rétt, hugsaði ég þegar ég las þessar línur og reyndi að átta mig á hvaða raunir ég hafi ratað í og þessi ágæti vinur minn vísaði til. Ég held áfram að hugsa um það í dag og ef ég kemst ekki að niðurstöðu spyr ég hann hvað hann eigi við.
Annars varð ég vitni að sérkennileg uppákomu í Horsens í gær, og tengist mögulegum raunum mínum ekki neitt. Ég var staddur í matvörubúð og kom að kassanum til að borga fyrir þær vörur sem ég hafði safnað í innkaupakörfuna. Ég tók eftir að við einn af kössunum – en þeir voru fjölmargir, enda marvöruverslunin einn af þessum stóru vörumörkuðum sem nú blómstra um allan heim – voru mikil hárreisti. Karlmaður af asískum uppruna, ægilega mjór og beinaber, hrópaði að kassastarfsmanni og benti á tvö kjötstykki sem lágu á kassafæribandinu. Kjötstykkin voru pökkuð hvort í sinn lofttæmda plastpoka og lágu þar í blóði sínu. Ég skyldi ekki orð af því sem maðurinn sagði og mig grunar að hann hafi talað kínversku. Það sama má segja um unga drenginn sem starfaði við kassann, hann skyldi augljóslega heldur ekki neitt. Hann stóð upp af stól sínum og leitaði örvæntingarfullur eftir hjálp, en beinaberi maðurinn hélt áfram að hrópa í reiði og baða út öllum öngum til að reyna að gera sig skiljanlegan. Svo tók hann fram litla vél með sínum beinaberu höndum – ég hélt að þetta væri myndavél – en þegar hann beindi vélinni að kjötstykkinu skutust margir rauðir, örfínir geislar út úr opi á vélinni. Kona sem stóð næst manninum öskraði í algerri móðursýki og var augljóslega viti sýnu fjær af hræðslu. Hún óttaðist augljóslega að um einhverja mannskæða árás væri að ræða, eiturefnaárás eða ég veit ekki hvað. Mér stóð heldur ekki á sama.
Fólk safnaðist saman í kringum þennan furðulega atburð, enda fjölmargir í versluninni. Önnur kona í þykkri kápu kom með miklum bækslagangi, ýtti fólki frá sem hafði hópast að og tók hina öskrandi konu í fang sér og dró hana út úr kösinni. Feitlaginn, sköllóttur maður með síðan, gráan hökutopp og í mótorhjólajakka hljóp líka hetjulega til. Hann réðst óhikað að beinabera manninum og reyndi að taka vélina af honum en sá streittist á móti af öllu afli. Einhvern veginn tókst þessum pasturslitla manni að rífa til sín vélina, hrinda manninum í mótorhjólajakkanum frá sér og hlaupa burt bæði með kjötstykkin og geislavélina.
Ég skil ekki enn um hvað þetta snerist.
ps. ég skrifað örlitla grein í gærkvöldi. Ég var að niðurlotum kominn þegar ég setti punktinn fyrir aftan skrif mín seint í gærkvöldi. Í morgun las ég aftur það sem ég hafði skrifað og ég sá að það stóð ekki steinn yfir steini, textinn var morandi í villum og algerlega óskiljanlegt raus. Nú er ég búinn að laga.