Ef maður skrifar bók eða bara texta, eins og þennan hér, skrifar maður fyrir aðra. Ekki neina sérstaka, ekki sérstakan hóp. Maður skapar lesanda í huganum og hann er sympatískur lesandi. Hann (lesandinn) er einhver sem er á sömu bylgjulengd og maður sjálfur, finnst sömu bækur góðar, sömu bækur lélegar og hann er líka sammála þér. Þetta er samt ekki þú sjálfur, það er mikilvægt, því það að skrifa texta er á einhvern hátt að snúa sér til annarra.
Það er líka einhver snertur af hégómagirnd við að skrifa. Sem höfundur viltu að fólk lesi textana þína. Að skrifa eitthvað sem enginn á eftir að lesa, aldrei, og öllum er skítsama um er óþægileg hugsun. Það er ekki það sama og mann dreymir stöðugt um metsölu en mann dreymir um að hafa áhrif á þann sem les, áhrif á hugsanir og tilfinningar annarra. Ef maður hefur ekki slík áform, skrifar maður ekki vel.
Það koma út hundruð þúsundir bóka út á hverju ári og flestar, langflestar eru dæmdar til að fá fáa lesendur, sumar kannski enga. Það er auðvitað sorglegt fyrir þann sem skrifar. Svo eru sumir höfundar sem vaxa úr að selja fáar bækur, hafa fáa lesendur til að verða vinsælir og dáðir höfundar um víða veröld, það eru til fjölmörg dæmi um slíkt. Jón Kalman er gott dæmi.
Fyrir tveimur vikum skrifaði ég það sem ég kalla smásögu. Það er í fyrsta sinn á ævinni sem ég skrifa smásögu og kannski á ég aldrei aftur eftir að endurtaka þann leik. Ég hafði lesið auglýsingu um smásagnasamkeppni svo ég settist samstundis niður. Mig langaði að prófa. Þetta var sunnudagur og ég var einn heima. Það tók mig langan tíma að skrifaði þessa litlu sögu, sem kalla má smásögu. Það varð svo ekki meira úr þessu (engin verðlaun og ekkert smásagnasafn, hehe) því ég hikaði svo með að senda söguna inn í keppnina, ég sá að sagan féll alls ekki inn í ramma samkeppninnar. En nú liggur hún hér inni í tölvunni minni.
Ég er búinn að segja upp skrifstofunni á lestarstöðinni, ég er búinn sem fótboltamaður, allt er á niðurleið. Ég segi bara eins og Eiríkur, þetta er búið. Yo!