Espergærde. „… enda fær bókin mann til að hugsa …“

Það er varla ég fari út úr húsi þessa dagana. Þegar ég mæti ekki á skrifstofuna er ég bara hér inni í eldhúsi og hamra á tölvuna; ég verð að bæta úr því og koma mér út í dag. Í gær sat ég allan daginn yfir mínum litlu verkefnum, stóð varla upp úr stólnum, sat og puðaði, velti vöngum og vandræðaðist. Ég eldaði ekki einu sinni mat heldur sótt ég samlokur hjá ítölsku vinum mínum á hornveitingastaðnum við höfnina fyrir okkur Davíð sem vorum einir heima. Sú stutta gönguferð, þar sem ég  andaði að mér fersku lofti, var eina hreyfing gærdagsins.

Ég reyni að fylgjast með bókaútgáfunni á Íslandi. Svo virðist sem Hallgrímur fái flugið þetta árið. Ég þarf að komast í að lesa bókina sem bíður mín hér inni í stofu. Annars skemmti ég mér yfir ritdómi á bók Bubba, ljóðabók, sem birtist í Mogganum og þar segir meðal annars: „Bubbi … er líklega þekktastur fyrir slagara sem gripið er til í útilegum á fallegum sumarnóttum … Eflaust munu meiri ljóðaspekingar en ég velta fyrir sér hversu vel ljóðin eru samin. Mér er eiginlega alveg sama um það enda fær bókin mann til að hugsa …“ Já, svo hljómar bókmenntadómur í Morgunblaðinu í nóvembermánuði árið 2018.

Sölvi og Ingibjörg koma í heimsókn í dag. Yo!

ps. niðurstaða í forritunarkeppninni kemur annað hvort í dag eða á morgun. Ég er kominn í undanúrslit, kannski vinn ég.

pps. Þetta er dagbókarfærsla númer 303 í ár

dagbók

Skildu eftir svar