Espergærde. Í tilefni dagsins

Ég hef hlakkað til þessa dags og grá gleymskuþokan sem lá yfir litla bænum mínum var algerlega fullkomin umgjörð fyrir þau hátíðarhöld sem ég hafði fyrirhugað. Ég var svo ánægður með þessa dularfullu morgunbirtu að ég gekk niður á strönd – áður en ég haltraði upp á skrifstofu – til að hlusta á þokulúðra flutningaskipana sem sigla hér í gegnum sundið milli Danmerkur og Svíþjóðar. Það er 8. nóvember og minn maður, rithöfundurinn sem ég hef dáð svo lengi, Kazuo Ishiguro, á afmæli í dag.

Ég hafði ákveðið að halda einkahátíð fyrir hann á afmælisdeginum og í gærkvöldi undirbjó ég dagskrána. Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir stutta umhugsun að Ishi ætti það skilið af mér –  sem þakkir fyrir allar gleðistundirnar sem hann hefur veitt –  að ég gerði daginn að hátíðardegi. Í gærkvöldi, eftir venjulegan háttatíma,  settist ég inn í eldhús þegar allir voru farnir að sofa og tók penna og blað og velti fyrir mér hvað ég gæti gert til að heiðra þann rithöfund sem hefur glatt mig svo mjög öll þau ár sem ég hef grúft mig yfir bókum. Ég setti saman dagskrá. Ég vandaði mig við að skrifa fallega uppsettan lista yfir dagskrárliði hátíðarinnar. Í gærkvöldi vissi ég ekki að Ishiguro-ísk gleymskuþoka mundi grúfa yfir mér og bænum mínum og þess vegna var fyrsta dagskráratriðið ekki með á listanum. En ég bætti úr því í morgun. Hér er listinn (nú uppfærður).

 1. Ganga niður á strönd og hlusta á skipin úti á sundinu þeyta lúðra sína í gegnum þokumistrið.
 2. Hella upp á svart morgunkaffi.
 3. Ishiguro-bókum mínum raðað í fallegan turn á borðinu við hliðina á tölvunni.
 4. Óhuggandi tekinn úr bunkanum. Flett að kaflanum þar sem tónlistarmaðurinn Ryder tekur hótellyftuna ásamt lyftuverðinum. Sá hluti kaflans lesinn upphátt þar sem þeir fara saman upp með lyftunni.
 5. Skrifa bréf til Ishiguro og óska honum til hamingju með daginn.
 6. Senda bréfið til Laurence (umboðsmaður Ishiguro) og biðja hana að koma því til höfundarins.
 7. Þýða fyrstu síðu bókarinnar The Buried Giant. Þá sameinumst við tveir, Ishi og ég, í einum og sama texta.
 8. Hlusta á David Horovitch lesa úr bókum Ishi á meðan ég vinn á skrifstofunni.
 9. Skrifa litla afmælisgrein um Ishiguro.
 10. Kvölddagskrá: Stout-bjór opnaður (uppáhaldsbjór Ishi) og skálað við Sus, Sölva og Ingibjörgu til heiðurs afmælisbarninu.
 11. Hátíðarkvöldverður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.