Espergærde. Gullverðlaunin

Ég byrja á því að skrifa niður það sem hefur fyllt höfuð mitt síðasta sólarhringinn, er það ekki einmitt tilgangur dagbókar? Eftir langa bið, þar sem þolinmæði mín var við að bresta, barst mér loks síðdegis í gær bréf frá formanni dómnefndar þeirrar sem valdi vinningsforritið í samkeppni áhugaforritara. Í stuttu máli sagt vann ég ekki og ég veit ekki af hverju mér þótti það svo þungbært. Ég var svolítið miður mín því ég hafði vonað og látið mig dreyma um að vinna þessi verðlaun, gullverðlaunin. En sem sagt ég vann ekki og nú hefur forritið varla látið hug minn í friði. Ég settist strax í gær og leiðrétti þær villur sem ég vissi af.

Í gær fórum við á fínan veitingastað niður Refshaleøen með Sölva og Ingibjörgu. Staðurinn var mér að skapi, innréttingin var einföld, fáir munir og mjög hátt til lofts í þessu hráa húsnæði. Maturinn var afbragð en forritið lét mig samt ekki í friði. Ég sá fyrir mér nýja möguleika, nýjar leiðir til að leysa verkefnið og strax í morgun gat ég ekki á mér setið. Ég opnaði tölvuna og hef setið linnulaust síðustu þrjár klukkustundir og endurskrifað forritið. Satt að segja er ég hissa á sjálfum mér því þetta forrit kemur engum að gagni og enginn á hvorki eftir að nýta það á neinn hátt. Nú hef ég lokið vinnu minni við það og nú verður það hér inni í tölvunni sem vitnisburður um tilraun mína til að vinna gullverðlaun.

Það er mikill menningardagur framundan í dag; heimsókn á Arken þar sem rómuð van Gogh sýning prýðir veggi safnsins. Ole arkitekt fer svo með okkur um Kaupmannahöfn og heldur kynningu arkitektúr valinna húsa  í borginni. Að því loknu förum við á ballettsýningu í Kaupmannahöfn. Þetta er svakaleg dagskrá og ég veit ekki alveg hvort að ballettinn nái að að fanga athygli mína. Ég er óvanur ballettsýningum og er ekki viss um að dansinn nái að heilla mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.