Það er ný vika framundan, afmælisvikan mín, og ég ætla mér í vikunni að klára verkefni sem ég tók að mér um daginn. Ég verð eiginlega að láta það takast því ég er á leið til parísar í næstu viku og verð þar í viku með annað verkefni.
Í vikunni sem leið voru nokkrir hápunktar:
- Heimsókn vikunnar: Sölvi og Ingibjörg komu á miðvikudaginn og fara aftur til Íslands á eftir. Algjörlega heimsókn vikunnar og veitti mér mikla gleði að hafa þau hjá mér.
- Ljósmynd vikunnar: Á hverjum degi, oft á dag, tek ég myndir út í loftið og nota þær yfirleitt hér sem skreytingu á dagbók dagsins. ég var eiginlega ánægðastur með myndina sem ég tók á þokudaginn mikla þann 8. nóvember. Hér er hún.
Mynd vikunnar - Frétt vikunnar. Ég las frétt um það í vikunni að heimurinn hefði í heildina aldrei haft það eins gott og nú. Færri svelta, fleiri eru læsir og fá menntun, fólk verður eldra og það sem vakti mesta athygli mína í þessari frétt var að fólk hafi aldrei verið gáfaðar en einmitt nú, mælt í IQ. Meðalgreindur maður í dag hefði veið algert séní á 18. öld.
- Útvarpsefni (poadcast) vikunnar: Var viðtal Eiríks við Matthías Johannessen. Mér fannst viðtalið kannski ekki toppgott, það var fínt, en ég hlustaði ekki á neitt betra.
- Lesefni vikunnar. Ég hef verið einstaklega slappur að lesa í þessari viku. Las nokkrar smásögur úr bókinni Rússneskar smásögur, las smásögur Kjell Askildsen (sem ég hef lesið milljón sinnum). Ég er byrjaður á bók Hallgríms Helgasonar en það besta sem ég las var kafli í bók Kazuo Ishiguro The Unconsoled. Það var bara frábærlega gaman að lesa þann kafla.
- Ákvörðun vikunnar: Að segja upp skrifstofunni á lestarstöðinni. Kannski ekki besta ákvörðun lífs míns. En það verður að koma í ljós.
- Skemmtilegasta kvikmynd vikunnar: Sá enga kvikmynd. Sá enga sjónvarpsþætti. Reyndi enn einu sinni að heillast af seríu. Sá byrjun af fyrsta þætti í sjónvarpsþáttaröðinni á Netflix sem heitir The Staircase en heillaðist ekki. (Sá nokkrar mínútu í leik Man. City vs. Man Utd. Það var skemmtilegast sem ég sá í TV.)
- Uppgötvun vikunnar: Jordan Peterson. Ég hafði auðvitað heyrt um bókina Tólf lífsreglur og hafði ekki haft sérstakan áhuga á henni. En svo las ég úttekt á manninum í Jyllands Posten og sá að ungir menn líta á hann sem einskonar föðurímynd. Ég varð hissa að þetta mikla fyrirbæri hefði svona gersamlega farið framhjá mér að ég hlustaði á eitt af youtube myndböndum hans. Ég sá auðvitað að Jordan Peterson er maður gáfaður og mælskur.
- Skemmtilegasta viðfangsefni vikunnar: Skemmtilegast þótti mér að skrifa litla smásögu. Ég skrifaði hana af rælni á fremur stuttum tíma. En svo hefur sagan sprottið upp í huga mér af og til í vikunni og þá hef ég bætt inn litlum málsgreinum hér og þar. Þetta hefur verið hin besta skemmtun og hefur eiginlega lyft vikunni dálítið upp. Ég held ekki að sagan sé sérlega góð en dundið við að lýsa þeim heimi sem sagan fjallar um hefur hresst mig nokkuð. Nú bíð ég bara eftir útgefendur hafi samband, bæði íselnskir og útlendir, og skrifi stóra útgáfusamninga við mig.
- Vonbrigði vikunnar: Ég vann ekki forritunarkeppnina fyrir áhugamenn sem ég tók þátt í og ég varð nokkuð spældur því ég var kominn í undanúrslit. Ég er alveg æstur í að vinna gullverðlaun.
- Tónlist vikunnar: Blonde Redhead sá um tónlistina í þessari viku.
- Setning vikunnar: járn brýnir járn, menn brýna menn.