Ég sit hérna í horninu mínu, í djúpa hægindastólnum, eins og ég hef gert síðustu klukkutíma. Fyrir ofan mig lýsir leslampinn og á hringborðinu við hliðina á mér er bókastæða og undirskál. Ég maula hrökkbrauð á meðan ég les gamla ljóðabók. Ég undra mig á hvað mér finnst bókin góð því mér finnst höfundur hennar svo vitlaus. Stundum hugsa ég að best væri að bækur væru höfundalausar, stundum er ekki hægt að slíta sig undan að láta höfund textans hafa áhrif á hvernig maður skynjar texta. Ferrante gerir kannski það rétta að vera ósýnileg, laus undan höfundarmynd, höfundarkyni, höfundaraldri, höfundarhörundslit, höfundarfegurð, höfundaruppruna …
Stundum ræð ég ekki við mig. Ég hendi mér óhugsað út í einhverja vitleysu. Í gær fékk ég íslenskan útgáfurétt á bók sem mig langar að koma út á íslensku. Þetta er algerlega út í loftið. Ég hafði ekki hugsað mér að gerast útgefandi á Íslandi aftur. En allt í einu er ég kominn með útgáfurétt á skáldverki. Ég er ekki búinn að ákveða hvað ég geri.