Í gærkvöldi las ég bók Hallgríms Helgasonar. Það er langt síðan ég byrjaði á bókinni en svo hef ég bara ekki haft ró í mér til að setjast niður með nákvæmlega eina bók. Ég hef verið upptekinn af alls konar öðru síðustu vikur. En í gærkvöldi sat ég rólegur í mínum djúpa stól út í horni, í mínu litla bókaskoti. Ég hafði stolist í súkkulaðistykki sem ég fann niður í skúffu, brotið mé væna plötu sem ég lagði á borð við hliðina á mér og maulaði á meðan ég las. (Nú set ég sviga til að segja að ég dáist að handbragði Hallgríms.) Á meðan ég hvarf inn í sagnaheim Hallgríms bárust hin sígildu sjónvarpshljóð frá stofunni. Sus og Davíð sátu og sáu einhverja danska sjónvarpsþáttaröð um leið og þau skipulögðu hvað þau ætluðu að gera í tilefni afmælisdags míns sem er á morgun. Yo! Númi lá við hliðina á þeim með tölvuna sína og horfði á sjónvarpsseríu á Netflix. Úti lagðist kyrrlátt kvöldmyrkrið á gluggana á herberginu mínu og kötturinn Gattuso lagðist malandi á stólbríkina, mér á vinstri hönd. Allt var eins og það átti að vera.
Mitt í þessu rólega kvöldi barst mér tölvupóstur. Pling heyrðist í símanum mínum sem ég geymdi í vasanum á buxunum mínum. Á hinum enda línunnar var ágæt vinkona mín, umboðsmaður margra góðra rithöfunda út í hinum stóra heimi og hún ítrekaði það sem hún hafði sagt í öðrum pósti fyrr í vikunni. Hún vildi fá mig til að gefa út á Íslandi einn af þeim rithöfundum sem hún hefur á sinni könnu. Höfundurinn er í flokki uppáhaldshöfunda minna og það veit hún vel.
Ég get vel séð fjörið í því að stofna enn eitt forlagið, nú con amour-forlag, sem gefur út bækur óháð sölumöguleikum eða von um efnahagslegan ágóða. Bara eitthvað fallegt. En ég hika. Ég er ekki viss um að það sé rétt að ég fari aftur af stað með bókaforlag. Ég hef stofnað svo mörg forlög í lífinu. Ég efast.
Þótt hugmyndin sé ágæt, í raun fyrirtaks hugmynd, að reka bókaforlag sem er drifið áfram af ást á bókum, velti ég því jafnframt fyrir mér hvort ég eigi ekki að reyna fyrir mér á öðrum vettvangi en keppnisvelli bókaútgáfunnar. Nú hef ég prófað að byggja hús og hvað það þýðir. Ég get vel stjórnað húsbyggingu og það er sannarlega gaman að reisa fallegt hús. En það er ekki í mínum huga sama listform og rekstur bókaútgáfu.
Á meðan kvöldið leið, sökk ég dýpra niður í hugsanir mínar og var eina mínútuna sannfærður um eitt og þá næstu sannfærður um eitthvað allt annað. Á endanum ákvað ég að bíða með að svara umboðsmanninum. Ég er á leið til Parísar á þriðjudag og á þar fundi með ágætu fólki og aldrei að vita hvað kemur út úr því.
ps Kannski ætti ég bara að vinna við það að vera dagbókarhöfundur. Ég heyri á börnum mínum að í heimum eru margir sem hafa það sem vinnu og tómstundagaman að gefa út youtube-myndbönd, birta myndir af sér á Instagram og Facebook með réttu vörurnar innan ramma myndanna sem þau birta. „Hvað gerir þú?“ „Ég er dagbókarhöfundur.“ Yo!