Espergærde. Hátíðarhöldin inni í mér.

„Hvað ætlarðu svo að gera í dag?“ Þessi spurning hefur nú verið borin upp við mig þrisvar sinnum, ég hef svarað þrisvar og haninn hefur ekki enn galað þrisvar enda klukkan rétt rúmlega átta. Og ég held að ég hafi gefið þrjú mismunandi svör því ég er ekki tilbúinn að spá um hvað ég tek mér fyrir hendur í dag. Í dag er afmælisdagurinn minn og þess vegna eru þessir aðilar forvitnir að heyra hvað ég ætla að gera við daginn. Á leiðinni til vinnu hringdi Sandra til að óska mér til hamingju.

Mér þykir gaman að eiga afmæli. Það er hátíð inni í mér en um leið er ég svolítið tilfinningasamur. Þegar ég hafði klætt mig snemma í morgun (ég fór í sömu föt og í gær)  og gekk ég niður í eldhús var J.S. Bach þegar farinn að syngja inn í hausnum á mér Ich ruf zu dir Jesu Christ (Chorale og Prelude BWV 693). Allir sem þekkja þetta verk Bachs vita hvað það er sentimentalt.  En þetta er ég. Þarna er ég lifandi kominn, glaður en um leið svo tilfinningasamur.

Og gleði mín þegar ég fæ afmæliskveðjur, þegar ég finn að fólk sem skiptir mig máli, hugsar til mín, er kannski í engu samræmi við tilefnið. Ég verð bara sérlega glaður inni í mér.

En svo ég svari spurningunni hvað ég ætla að gera á afmælisdaginn fyrir utan að halda hátíð inni í mér og söngla Bach. Ég er búinn að hugsa um það á meðan ég skrifa hér í dagbókina. Ég ætla að reyna að klára verkefni sem ég hef haft á borðinu hjá mér síðustu vikur og baslað nokkuð við. Það er í sjálfu sér tilefni hátíðarhalda ef mér tekst að klára í dag. Ef ég næ að setja lokapunkt áður en vinnudegi líkur hafði ég hugsað mér að undirbúa ferð mína til Parísar næsta þriðjudag.

Sus er góð við mig og ætlar bæði að baka kanilsnúða handa mér af því að mér finnst þeir svo góðir og hún ætlar líka að búa til góðan mat fyrir okkur í kvöld. (Það er í sjálfu sér alltaf góður matur heima hjá mér, en í kvöld verður kvöldmáltíðin gerð sérlega hátíðleg.)

Í tilefni dagsins hef ég ákveðið að skrifa lítinn lista. Bach-lista.

  1. J. S. Bach var svo afkastamikill að það tæki marga áratugi að skrifa upp öll þau verk sem hann samdi.
  2. Það er sagt um Bach að hann hafi skrifað verk sín alveg án leiðbeininga fyrir flytjanda. Þannig eru engin piano, forte, staccado … merki á nótunum svo það er alveg undir tónlistarflytjandanum komið hvernig hann spilar verkið. Hver tónlistarmaður hefur mikið frelsi við flutninginn. Þess vegna getur flutningur á sama verki verið mjög mismunandi frá einum listamanni til annars.
  3. Það er sagt um J.S. Bach að tónlist hans sé brunnurinn sem aldrei tæmist.
  4. Mér finnst ég vera ríkur að hafa eignast fimm börn en J.S. Bach eignaðist 20 börn. 11 syni og 9 dætur.

Þetta er það sem kemur í hugann um Johann Sebastian Bach að morgni þess 15. nóvember 2018, daginn sem ég varð 57 ára.

IMG_2838
Á afmælisdeginum mínum 15. nóvember 2018.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.