Espergærde: Versta hugsun ársins 2017 sækir enn á mig.

Afmælisdagur að baki. Ég naut þess að eiga afmæli og fá kveðjur frá fólki sem ég þekki og þar held að það skipti máli að ég er í útlöndum.  Mikilvægi þess að fólk muni eftir mér verður sennilega meira.

En nú er kominn nýr dagur og ég er búinn að taka þátt í hrikalegum surprise fredag þar sem ironman þjálfari setti okkur í  hrikalegt morgunprógramm, parakeppni (sem við Sus unnum, yo!). Minn aðalveikleiki hefur alltaf verið maginn og ég var algerlega kominn að því að æla í morgun; varð að setjast út á stétt að lokinni keppninni til að fá súrefni í blóðið og setja hausinn á mér milli fótanna.

Og það hafa fleiri erindi tafið mig í morgun. Ég þurfti að mæta á fund hjá lögfræðingi í morgun, það er ekki alltaf gaman að eiga við þessa lögfræðinga, þeir hafa sannarlega reglu á hlutunum öfugt við mig, en þessi lögfræðingur lauk erindi sínu á tiltölulega stuttum tíma og setti mig hratt og vel inn í málið. Það var bara ánægjulegt að eiga við þessa laganna konu.

Að loknum fundi með lögmanni þurfti ég að setja vetrardekk á bílinn minn og það er tilhlaupsverk því bílamaðurinn sem sér um það (hann geymir líka dekkin fyrir okkur) er á einhvern hátt óþægilegur gaur. Og hvorki á #meeToo tímum né öðrum tímum held ég að mundi ég mundi senda konu á verkstæðið til hans.

En hvað um það, ég er sestur hér á skrifstofuna og Chet sér um tónlistina í dag. Jón Kalman er búinn að senda mér kvæði úr nýju bókinni hans Hannesar Péturssonar. Gott. Hann yrkir mikið um að vera gamall og vinirnir horfnir. Hannes er fæddur árið 1930 og orðinn 88 ára. Ég er sjálfur ekki svona gamall en mér finnst líka að tíminn sé að renna frá mér. Ég man að ég skrifaði í uppgjöri ársins 2017 hér á Kaktus: „Versta hugsun ársins: Ég er í tímaþröng, ég er á síðustu bensínsdropunum. Þetta er hugsun sem er farin að herja á mig síðustu mánuði. Mér finnst ég eiga svo stutt eftir að ég er í stanslausri tímaörvæntingu.“

Þetta veldur töluverðu fáti og angist því mér finnst ég þurfa að ná svo mörgu. Stundum verður þessi pressa (sjálfskapaða) til þess að ég hef alltof marga bolta á lofti í einu, rýk úr einu í annað.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.