Espergærde. Maður án hunds

Það er laugardagsmorgunn og ég er búinn að lesa dagblöðin sem hingað berast, ég er búinn að ganga niður á strönd og ég er búinn að hitta félaga minn með hundinn. Þetta er svo sem ekki sérlega skýr skilgreining á manni, maðurinn með hundinn, því allir eru menn með hund nú á tímum. Sennilega væri lýsing á manni skarpari og skýrari ef maður talaði um manninn sem er án hunds. Maður án hunds.

En sem sagt, ég fór út í morgun til að kíkja á sjóinn. Úti var nánast logn en sólin náði ekki að bora geislum sínum í  gegnum þykku, gráu skýjahuluna sem grúfði yfir litla bænum mínum. Gangan niður á strönd tekur ekki nema fimm mínútur og það var syfjulegur bær sem mætti mér á ferð minni. Frá húsunum bárust út á götu helgarmorgunhljóð; morgunglamur í diskum, morgunútvarp og morgunraddir fjölskyldnanna frá morgunborðunum.

Það er augljóslega helgardagur því við baðbrúna norpaði (það er loftkalt) fólk í röðum eftir að komast niður í sjóinn, sjósundsfólkið, til að fá sér smá sundsprett. Ég fór eiginlega hjá mér að væflast alklæddur þarna við sjóbaðsbrúna á meðal allra þessara nöktu kroppa og því sneri ég mér undan og gekk aðra  leið. Og það var einmitt þá sem ég hitti félaga minn með hundinn og eins og venjulega hélt hann á kaffibollanum sínum í annarri hendi og hundólinni í hinni.
„Góðan daginn,“ sagði ég.
„Já, daginn,“ sagði hann án þess almennilega að líta á mig eða gefa mér merki um að hann hefði tekið eftir mér.
„Hvað er að þér í dag, ertu í vondu skapi?“ spurði ég til að stríða honum. Og nú leit hann upp og það sást örla fyrir glotti.
„Ég er alltaf í vondu skapi. Það væru fréttir ef ég væri ekki í vondu skapi. Heyrðu mig. Ég hitti áðan mann héðan úr bænum sem rekur þennan litla biks (ég veit ekki hvað hann átti við með biks) og ég hafði stundum keypt svolítið af honum. Ég hef verið hundóánægður með þetta drasl sem hann selur og ég sagði það við hann. Ég sagði við hann ‘heyrðu félagi, þetta er nú ljóta draslið sem þú ert með á boðstólum, ég er óánægður með það sem ég keypti hjá þér’. Þetta sagði ég við hann hérna áðan þegar við hittumst og hvað heldurðu að helvítis fíflið geri?“
„Ég veit það ekki … hvað gerði hann.“
„Hann bara brosti, hann skælbrosti, og yppti öxlum eins og það væri ekkert að því að hann seldi lélegar vörur. Eins og hann skammaðist sín ekki hið minnsta… Sjáðu til, það eru tvennskonar fyrirtæki í heiminum; þau sem eru upptekin af því að selja einhver ósköp, bara selja selja selja einhvern helvítis helling og svo eru það hin fyrirtækin sem hugsa fyrst og fremst um að búa til stórkostlegar vörur þar sem vandvirknin og ástin skín af vörunni. Þannig er fyrirtækið mitt og þannig verður fyrirtækið mitt alltaf. Ég mundi skammast mín svo mikið ef ég mætti manni sem segði við mig: „Ég var að kaupa vöruna þína og haltu kjafti (þýtt úr dönsku) hvað þetta er mikið drasl sem þú býrð til.“

Svona voru samskiptin okkar í dag. Ég án hunds og hann með hund.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.