Espergærde. Hinn lágstemmdi hugur.

Thomas, duglegi maðurinn, hélt vinum sínum í gærkvöldi það sem hér í landi kallast julefrokost. Þá er boðið upp á allskyns jólamat og drukkinn bjór og snaps með matnum. Hann vildi að ég kæmi til veislunnar hans og þar sem mér fannst svo fínt hjá honum að bjóða til svona fínnar veislu þáði ég boðið  og  mætti stundvíslega klukkan 18:00 til hans. Sumir hinna boðsgestanna voru þegar mættir þegar ég bankaði að dyrum.

Til samkomunnar hafði 12 karlmönnum verið boðið, ekki 12 postulum, heldur 12 karlmönnum sem þekktust mismikið innbyrðist.  Ég þekkti þrjá auk Thomasar. Allt var hið glæsilegasta hjá Thomasi og ekkert skorti hvorki í mat né drykk, Eftir því sem á kvöldið leið og snapsarnir urðu fleiri varð samkoman háværari og óreiðukenndari.  Flestir urðu nokkuð ölvaðir af snapsdrykkjunni.

Ég er lágmæltur maður og enginn sérstakur veisluapi. Það er ekki ég sem held uppi fjörinu í svona veislu. Það liggur í skapferli mínu að fylgjast frekar með og spjalla í rólegheitum við þann sem  situr mér við hlið. Sumir fara að hafa áhyggjur af þessum stillta manni og halda að eitthvað ami að þegar ég segi ekki svo margt.

Ég er ekki á heimavelli í svona veislu, mér finnst sjálfur ég bara leiðindagaur sem get ekki bara hrópað og hlegið eins og hinir veislukarlarnir. Svona veislur eiga sem sagt ekki við mig. Mér hentar betur veislur þar sem ég þekki alla viðstadda nokkuð vel og þar sem minn lágstemmdi hugur er ekki til óþæginda fyrir aðra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.