Staðan er sú að ég sit skyndilega í Batman-íbúðinni í París. Íbúðin hefur í sjálfu sér engin tengsl við Batman önnur en þau að Jón Karl, sem dvaldi hér einu sinni, sagði að íbúðin minnti sig á íbúð sem hann hafði séð í Batman-mynd, ég held hreinlega að það hafi verið íbúð aðalpersónunnar. En hér er ég og þessi íbúð er aldeilis fínn dvalarstaður fyrir verkefni næstu sjö daga.
Ég var fyrr á ferðinni en ég hafði reiknað með; flugið gekk óvenjuvel og aldraður leigubílstjóri sem mig grunar að hafi verið blindur og með innibyggðan leðurblökuradar í enni sér þaut frá flugvellinum og í gegnum bæinn á undraverðum hraða beint á áfangastað, þótt hann virtist alls ekki viss um hvert hann ætti að keyra mig þegar hann lagði af stað. Ég hafði reynt að bera fram götunafnið Rue des Tournelles, þegar ég gaf honum fyrirmæli um hvert ég vildi keyra, en hann gaf engin merki um að hann skildi mig. Ég rétti honum þá símann minn og skrifaði götunafnið. Hann sá ekkert á símann sama hvað ég stækkaði stafina. Allt í einu rauk hann bara af stað á litlu druslunni sinni; sætin rifin og alls konar vírar héngu út úr mælaborðinu. Ofan af Parísarhimninum féll gífurlegt regn og alla leið frá flugvellinum keyrðum við í gegnum djúpa polla og ausandi úrhelli steyptist yfir okkur en ökumaðurinn virtist ekki þurfa á rúðuþurrkum að halda. Hann rýndi bara einhvern veginn í gegnum regnmóðuna á bílrúðunni og smaug utanum umferðarþvöguna á feykilegum hraða. Ég sá ekkert út. Ég ákvað bara að loka augunum og vona það besta.
En fyrr en varði rankaði ég við mér þegar húfuklæddi öldungurinn í ökumannssætinu kallaði til mín: „monsieur“. Ég opnaði augun, fann að bíllinn hafði numið staðar og ég skrúfaði niður rúðuna til að sjá hvar við vorum staddir og viti menn; dyrnar á Rue dkes Tournelles 82 blöstu við mér í gegnum gluggann.

Og nú er ég sestur og skipulegg næstu sjö daga því allt skipulag fór úr böndunum í gær þegar ég þurfti að rjúka til Horsens og náði ekki að nota mánudaginn til að undirbúa mig eins og ég hafði áætlað.