París. Ungfrú Ísland og eiginkona Einars

Ég vaknaði snemma, löngu áður en kaffistaðurinn minn hér á jarðhæðinni opnar. Ég ákvað því bara – þar sem ég gat ekki fengið neinn morgunmat fyrr en klukkan átta – að liggja áfram uppi í bæli og klára bók Auðar Ólafsdóttur, Ungfrú Íslands, sem ég byrjaði á í gær. Satt að segja leist mér ekki nógu vel á bókina í upphafi og eftir lestur fyrstu hundrað síðnanna var ég í efa um að þetta væri bók fyrir mig. Mér finnst minnihlutahópsdaðrið svolítið þreytandi; þegar sérhver persóna sem er kyrfilega merkt minnihlutahóp á stöðugt undir högg að sækja í sögunni, er misskilin og á bágt. En svo í seinnihluta frásagnarinnar tekst bókin á ágætt flug. Mér finnst enn Afleggjarinn besta bók Auðar, en stemmningin í seinni hluta Ungfrú Ísland minnir nokkuð á Afleggjarann.

En nú er ég sem sagt sestur hér niður á mitt litla kaffihús og ég get ekki annað en glaðst yfir hve staðurinn er orðinn vinsæll; hér er setið á hverjum stól. Fyrst þegar ég kom hingað (fyrir tveimur árum) var ég oft eini gestur staðarins. Afgreiðslufólkið sem sér um kaffiveitingarnar þekki ég ekki, þetta er nýtt fólk og enginn hefur lengur lopahúfu á höfðinu eins og síðast þegar ég drakk kaffi hér. Við hliðina á mér situr ungur maður, sennilega kínverskur. Hann talar við sjálfan sig á meðan hann flettir í dagbók sinni, eins og hann skipuleggi dagana í París og hann hefur pantað stóra morgunmáltíð  (brauð með avokadó, egg, salat, sætabrauð og kaffi) sem hann myndar í bak og fyrir áður en hann byrjar að borða. Um leið og hann stingur fyrsta bitnum upp í sig ranghvolfir hann í sér augunum og sveiflar gaflinum eins og tónsprota. Ég held að honum þyki brauðið gott. Ég ákvað að fara að dæmi hans og taka mynd af veitingunum,  hafragraut morgunsins.

IMG_2865

Í gær horfði ég á viðtal við George Saunders, smásagnahöfundinn bandaríska, á meðan ég borðaði kvöldmat. Ég hafði farið út í búð og keypt mér ost, skinku og baguette (vöntun á einhverju betra) sem ég svo nartaði í við kvöldmataleyti. Mér fannst gaman að heyra Saunders, sem er menntaður verkfræðingur, lýsa því hvernig hann smám saman hrökklaðist úr starfi sínu sem verkfræðingur (þar sem hann naut þess helst að skrifa skýrslur) og yfir í að skrifa smásögur.

Ég var lúinn í gærkvöldi og lagðist snemma upp í rúm og sofnaði örugglega fyrir klukkan ellefu með bókina hennar Auðar ofan í andlitinu.

Ps. Ég las um „mál eiginkonu Einars Bárðarsonar“ eins og málið heitir í sumum fjölmiðlum og svo kemur í ljós eftir allt fárið að það var „frammistöðuvandi“ sem varð til að „eiginkona Einars Bárðarsonar“ var rekinn (ekki kom það mér mjög á óvart). Skammarlegt finnst mér að þau hjón reyni að fá sér far með #meetoo vagninum þegar ástæða brottvísunar hafði ekkert með #meetoo að gera. „Eiginkona Einars Bárðarsonar“ var einfaldlega ekki nógu góður starfsmaður. Það getur gerst á bestu bæjum að starf henti manni ekki.

Pps. nú er sessunautur minn búinn að panta sér annað sætabrauð. Hann nýtur þess sannarlega að borða á kaffihúsinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.