París. Í útlegðinni

Dagarnir í Parísarborg líða hratt. Skyndilega og alveg upp úr þurru er kominn föstudagur. Mér hefur orðið mikið úr verki síðustu daga. Ég mundi allt í einu eftir mælingaraðferð sem ég notaði síðast þegar ég var í París og tók hana upp í gær. Afköstin voru 116%, yo!

Í gærkvöldi þegar ég lagði niður vinnu fór ég á franska staðinn, eins og ég kalla hann, eða brúna staðinn eins og ég kalla hann líka, vegna þess að það eru brúnt útihengi yfir staðnum, og borðaði kvöldmat. Ég hef ákveðið að sniðganga í þessari ferð ítölsku vini mína á Le petit italian-veitingastaðnum. Maturinn hjá þeim var ekki nógu góður en á brúna staðnum er ekta franskur sósumatur og fínasta fólk við þjónustustörf sem er farið að kannast við og taka fagnandi á móti hinum langa Íslending sem nú hefur sótt staðinn tvö kvöld í röð.

Á morgunkaffistaðnum mínum hef ég setið aleinn í tæpan hálftíma. Það koma bara engir gestir í dag. Houellebecq er ekki að vinna og því er Bob Dylan á fóninum, ekki franska pönktónlistin hans. Nú ganga inn tvær feitlagnar, ungar konur með fýlusvip á andlitinu. Þær koma hikandi inn, virða staðinn fyrir sér og eru að reyna að gera upp við sig hvort þær eigi að setjast niður. Þær eru báðar í einskonar æfingafötum, án þess að þær beri það með sér að hafa verið að æfa neitt, önnur heldur meira að segja á löngum rauðum trefli. Þær horfa fýlulega hvort á aðra og ákveða svo að fá sér sæti út í horni. Önnur þeirra minnir mig á íslenska konu sem ég kannast við. Það örlar ekki á mikilli gleði hjá stúlkunum, þær eru eitthvað óánægðar. „Stop crying, baby, please stop crying,“ syngur Dylan

Í gær barst mér, hingað í útlegðina langt og gott bréf frá einum af mínum góðu félögum. (Það er mér stórkostlegt gleðiefni þegar ég fæ bréf, og ekki verra að þau séu löng). Meðal annars kvartaði hann undan því að stemmningin í kringum jólabókaflóðið væri „nákvæmlega engin“. Kannski er það vegna þess að fáir ritdómar birtast eða þá að „þau viðtöl sem birtast við höfunda, sem eru að berjast við að komu bókum sínum á framfæri, eru svo arfaléleg, þau eru í besta falli tilgerðarleg,  en generalt bara óáhugaverð…“

Ég er ódómbær á þessi orð félaga míns þar sem ég fylgist ekki svo vel með framvindu mála á Íslandi þessa dagana. Mér fannst hann kannski aðeins of harðorður. Ég las þó viðtal við Ófeig Sigurðsson í Vísi (er það ekki Fréttablaðið?) og ég kannaðist að hluta til við það sem félagi minn sagði. Það var eitthvað óekta við viðtalið, ekki sannur tónn. Það er ekki endilega við viðmælanda að sakast. Blaðamaðurinn á ekki síður sök þegar svo illa tekst til.

Eftir að ég kom heim af franska staðnum í gærkvöldi ákvað ég að klára bók Ragnars Helga um bókasafn föður hans. Það er fín bók. Seinni hluti bókarinnar þó síðri en fyrri helmingurinn því bókin fær þar svolitla tilvitnanaslagsíðu. Ég var í stuði í gær og var alls ekkert syfjaður þótt ég vakni um fimmleytið á morgnana. Ég byrjaði því á bók míns gamla höfundar Guðrúnar Evu, Ástin Texas. Þetta er smásagnasafn – satt að segja veit ég ekki hvort bókin er komin út, ég fékk pdf hjá Palla. Ég las fyrstu söguna og í kvöld ætla ég að klára hana.

Ég var eitthvað að minnast á það hér á Kaktus að ég hefði ekki bók Eiríks Guðmundssonar í Parísarútlegðinni en í gær bárust mér skilaboð um að höfundur ætli að sjá til þess að mér berist bókin „ekkert pdf“ áður en vist minni hér í París líkur. Ég heyri út undan mér að Eiríkur nái miklu flugi og þetta sé bókin sem bókmenntafólk hafi beðið eftir.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.