París. Birgitta Hauksdóttir í aðalhlutverki.

Hingað í útgerðina í París berast mér stöku sinnum bréf frá vinum mínum. Í gær hafði einn af mínum stórfínu vinum  einsett sér að kortleggja líf mitt hér í stórborginni. Hún setti upp tímalínu yfir daginn hjá mér og ég verð að viðurkenna að vinkona mín var ekki fjarri lagi. Í gærkvöldi kom svo annað bréf frá öðrum vini mínum sem sendi mér líka sína útfærslu á tímalínu dagsins. Hann var enn nær. Það er auðvitað fyndið að félögum mínum finnist vera mín í París krefjast kenninga um tímalínu daganna.

Annars finnst mér bæði hlægilegt og dapurlegt að helstu fréttir af íslenskum bókamarkaði séu að Birgitta Haukdal hafi notað rangt starfsheiti í sõgu þar sem ein eða fleiri persónur í bók hennar eru hjúkrunarfæðingar. Og að þetta yfirskyggi öll þau afrek sem rithöfundar þjóðarinnar hafa unnið og birtist í þeim bókum sem nú koma úr prentun. Það krefst úthalds, kunnáttu, hæfni og styrks að skrifa bækur eins og bók Bergsveins Birgissonar, Hallgríms, Auðar, Eiríks, Ófeigs, Guðrúnar Evu… svona get ég haldið áfram, það  eru svo margar bækur sem bera vitni um dugnað og góða heilastarfssemi og svo er það þessi yfirsjón Birgittu sem stelur senunni. Nú vantar mig almennilega upphrópun sem lýsir svekkelsi mínu með hina bókelsku þjóð.

Nú má ég ekki gleyma eigin afrekum; 104% afköst í gær. Einhvern veginn var allt svolítið seigt í gær, seigara en venjulega, ég komst lítið áfram fyrripart dags og það var ekki fyrr en upp úr klukkan 13:04 (eftir að ég var búinn að koma við í matsölu á leiðinni til Batman-íbúðarinnar og kaupa mér þrjár litlar bökur) að afköst urðu sjáanleg. Bökurnar, áttu víst argentínskan uppruna, en voru ekki sérlega góðar. Ég fékk þó mína grunnorku.

Ég flottaði mig (eins og það heitir á dönsku) í morgun hér á kaffistaðnum mínum og pantaði avocado-brauð í stað hafragrauts. Ég sá eiginlega strax eftir því og ég endurtek leikinn ekki í bráð.

IMG_2887
Fína avocado-brauðið mitt.

Klukkan 17:00 í dag á ég svo óvænt stefnumót. Íslendingur, sem ég þekki frá fornu fari, á leið um París og vissi af mér í útlegð minni og lagði til að við hittumst í dag. Ég held að ég hitti bjórsölumanninn neðar í götunni og kaupi fínan bjór til að bjóða manninn velkominn með. Maður verður að taka vel á móti gestum.

ps. skyndilega eru starfsmennirnir hér á litlu kaffistofunni minni orðnir 5  og klukkan er bara hálfníu á laugardagsmorgni. Þau gera sig klár fyrir fjölmenni í dag, stórum viðskiptadegi, þótt ég óttist að timburmenn eftir kolsvartan föstudag gætu hamlað viðskipum á hinum gráa laugardegi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.