París. Besta tímabil lífs.

Það rignir í Parísarborg, hellirignir svo ég varð hundblautur bara á tveggja metra langri göngu niður á hipsterakaffistaðinn minn. Það hafa margir leitað skjóls hér inni – þar sem ég sit nú og skrifa þessi orð – þótt enn sé snemma morguns. Það er setið við öll borð  og við hliðina á mér hefur fimm manna fjölskylda komið sér fyrir. Faðir, móðir og þrjár, ægilega nefstórar, dætur. Þau ræða af ákefð einhver málefni sem föðurnum eru augljóslega afar hugleikinn, því það er hann sem hefur oftast orðið. Þau tala  austur-evróputungumál og ég skil því ekki hvert umræðuefnið er. Faðirinn setur inn á milli upp hálfgerða leikþætti, þar sem hann bregður sér í hin ýmsu gervi, breytir rödd og beitir ýktum handahreyfingum. Þetta er ekki skemmtisögur sem hann flytur, svo mikið get ég skilið, og öll hin fylgjast með föðurnum alvarleg á svipinn og  hlusta andaktug á. Þetta er athyglisverð fjölskylda.

Ég fékk heimsókn í gær frá gömlum félaga mínum. Það fannst mér sannarlega ánægjuleg heimsókn. Þegar ég hafði kvatt hann eftir nokkra klukkutíma samræður og ljómandi góða máltíð á franska veitingastaðnum hér á götuhorninu, sóttu að mér hugsanir um löngu liðna tíð þegar ég var háskólanemandi.  Í minningunni er það enginn sérstakur gleðitími í lífi mínu, heldur alls enginn sorgartími. Sem háskólanemi var ég bara á öðrum báti en samnemendur mínir, þriggja barna faðir, og hafði öðru að sinna en þeir. Það var því ekki hið ríkulega félagslíf sem ég minnist frá háskóladögum mínum, heldur kom fyrst í hugann hin eilífa barátta við að finna tíma og frið til að sinna náminu.  Sennilega kviknuðu þessar hugsanir vegna þess að undir máltíðinni spurði félagi minn, næstum því upp úr þurru, hvaða tímabil lífs míns ég telji mitt ánægjulegasta. Spurningin kom flatt upp á mig og í einni sjónhendingu rifjaði ég upp líf mitt og svo tiltók ég nánast hugsanalaust stutt skeið lífs míns þegar ég bjó enn á Íslandi. En í andvöku minni í nótt furðaði ég mig á að ég skyldi nefna nákvæmlega þetta tímaskeið. Þegar ég hugsa mig betur um held ég að nákvæmlega hin síðustu ár séu að mörgu leyti þau ánægjulegustu. Ég er flókin sál, eins þessi góði gestur sagði, og ég á ekki alltaf létt með að skilja sjálfan mig.

Hefði ég spurt pabba minn þessarar sömu spurningar held ég að hann hefði ekki hikað. Hann hefði sagt Oxford-árin eða jafnvel árin í Kaupmannahöfn eða …. Mamma hefði sennilega sagt árin í Odda með hænunum. Annars, þegar ég hugsa mig betur um, kemst ég að því að ég veit ekkert um þetta.  Ég veit ekkert í minn haus.

ps. Ekki fékk ég bókina hans Eiríks í gær eins og ég hafði vonast eftir. Ég reyni að hafa uppi á boðberanum í dag. Annars eru nokkrar skáldsögur sem ég á eftir að lesa og þarf að ná mér í. Hið heilaga orð, Sigríður Hagalín og Krossfiska Jónasar Reynis Gunnarssonar, bók sem alveg hefur farið framhjá mér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.