Ég sofnaði aftur í morgun eftir að vekjaraklukkan hafði hringt og vaknaði með andfælum klukkan korter í átta. Furðulegt hvað maður sefur vel þegar maður sofnar aftur og mig dreymdi allskonar fólk. Minn gamla bekkjarfélag Binna Stefáns, sem var orðinn mjór eftir endalaus hlaup. Mig dreymdi Palla Vals sem var búinn að koma sér fyrir á bóndabæ með hænur og risanaut. Þarna var Þorsteinn J. nýbúinn að veiða einhvern stærðar fisk með Boga og Lindu minni. Draumar er skemmtilegir fyrir dreymanda, en ekki aðra.
Það gerðist ekki sérlega margt í gær annað en að ég puðaði og það er réttnefni á streði mínu. Allt er frekar seigt þessa dagana.
Svo náði ég sambandi við boðbera bókar Eiríks Guðmundssonar sem var komin (bókin ekki Eiríkur) með flugi til Parísar, gagngert til að ég gæti lesið hana hér í útlegðinni. Við mæltum okkur mót á kaffihúsinu Les Philosophers sem er einn af hinum þekktu kaffistöðum í París. Ég held að þar hafa stórskáldin setið löngum stundum. Stefnumótið var ákveðið klukkan 17:30 en ég var tíu mínútum fyrr á ferðinni og settist utandyra og beið. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að grípa ekki símann minn til að láta tímann líða. Mér er ofboðið, bæði yfir sjálfum mér og öðrum, að engin biðstund getur verið án þess að líta á símann sinn. Ég sat því aðgerðarlaus og horfði út í loftið. Hlustaði með öðru eyranu á samtöl þeirra sem sátu í kringum mig. Af einhverjum ástæðum virtust allir tala ensku.
Þarna sat ég í klukkutíma og beið eftir sendiboðanum sem hafði villst á leið sinni. Það gerði svo sem ekkert til að ég biði aðgerðarlaus í klukkutíma. Ég náði ekki einu sinni að hugsa eina ákveðna hugsun, hugurinn reikaði eins og maður segir. Mér varð meðal annars hugsað til þess að ég hef einu sinni séð leikritið Beðið eftir Godot og það sá ég á leiksviði á árum mínum í Þýskalandi. Ég var sennilega nýkominn til landsins því ég man að ég skyldi ekki sérlega margt af því sem leikararnir sögðu. Kannski var það þessi kaffistaður, sem Beckett sótti að ég held, kannski var það staða mín sem bíðandi manns sem vakti þessa hugsun. Ég ákvað að minnsta kosti að ég skyldi lesa leikritið einhvern tíma
ps. Ég neyddist til að sitja til klukkan ellefu í gærkvöldi til að ná því sem ég ætlaði mér í gær.