París. Hin skrýtnu verkefni

Ég er kominn á flugvöllinn í Paris, CDG. Ég er varkár á ferðalagi, geri ráð fyrir töfum og vandræðum og því fer ég nokkuð snemma af stað til flugvallarins. Það er  biðtími framundan og ég hef komið mér fyrir við borð úti í horni.

Leigubílstjórinn sem keyrði mig hingað var skrafhreifinn. Það hentar mér ekki. Hann vildi kenna mér ýmislegt um mannkynssöguna, vildi prófa nokkrar heimaprjónaðar kenningar á mér, en ég var ekki sérlega upprifinn yfir þessu spjalli hans. Satt að segja var það frekar pirrandi röfl, látlaust suð. Ég reyndi að þagga niður í manninum með því að svara fáu sem hann sagði, en það sló hann ekki út af laginu. Ný mannkynssögukenning rakti aðra. Ætli hann segi það sama við alla farþega sína?

Nú er Parísarvika að baki. Ströng vinnuvika og mér tókst að ná markmiði mínu með ferðinni. Ég nýt þess að vera í París og ég nýt þess að geta helgað mig verkefnum mínum. Ég þarf ekki einu sinni að vaska upp. Í gær ákvað ég að nýta síðustu stundirnar, taka góðan endasprett og fór þess vegna ekki út að borða í gærkvöldi. Mér fannst tilheyra að svelta mig síðasta daginn í þessari lúxusdvöl þar sem ekkert annað er í brennidepli en ég og mín skrýtnu verkefni.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.