Espergærde. Það sem hjarta þitt þráir

Í morgun á leið minni til vinnu hitti ég vin minn hundaeigandann. Hann norpaði á götuhorni með kaffibollann sinn og beið þess að hundspottið kláraði að þefa og spræna og hvað það nú er sem hundar dunda sér við. Það er kalt í Danmörku þessa daga, frost og vindur af hafi og félagi minn hundaeigandinn var í þunnum frakka og sennilega enn í náttfötunum innanundir. Honum var augljóslega kalt. Öll líkamstjáning hans benti til þess að honum var hundkalt og að honum leiddist þessi göngutúr með hundi sínum.

„Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir,“ sagði hann glottandi og leit þreyttum augum á hundinn sinn.
„Já, það er huggun að hugsa á þennan hátt þegar maður hefur það skítt,“ sagði ég.
„Vandinn er bara að ég hugsa ekki svona, ég fer bara með eitthvað sem ég hef heyrt … ég hugsa ekki svona. Hvað er það sem hjarta mitt þráir? Hvað þráir þitt íslenska hjarta?“

Ég gat ekki svarað manninum á staðnum, sennilega var svarið að finna í mínum akút-vanda. Mig vantar vinnuskjal sem ég finn ekki á tölvunni minni!

Það er ein af hinum ægilega vondu tilfinningum að týna eða glata því sem maður hefur eitt mörgum tímum í að afreka. Vinnan er horfin út um gluggann, tíminn notaður til einskis. Í París komst ég að eitt af vinnuskjölunum sem ég hafði sett inn á dropboxið mitt var ekki nýjasta útgáfa skjalsins og þar sem ég hafði ekki möguleika á að athuga hvort skjalið væri á vinnutölvunni minni í Danmörku hafa þessar áhyggjur mínar af skjalinu blundað í mér dögum saman. Í morgun var ég sem sagt á leið til skrifstofu og fyrsta verk mitt yrði  að kanna hvort skjalið væri á tölvunni. Það var þessi hugsun sem var efst í huga mér og það var á þessu augnabliki sem hjarta mitt þráði mest að skjalið lægi á tölvunni.

Í stuttu máli: Skjalið er horfið. Ég hef vistað gamalt skjal yfir nýjustu versjón. Ég er auli ég er kaótískur og ég misstíg mig. Ég er alltaf að reyna að finna gott verkleg með að vista skjöl og ég hef tvo backupdiska og eitt dropbox og samt gerist þetta.

Í stuttu máli 2: Ég væli ekki, ég hoppa aftur á bak hesti mínum og hefst handa við að endurskapa skjalið

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.