Espergærde. Þegar mennirnir sýna sitt rétta andlit

Af jarðarinnar hálfu byrja allir fallega, hugsaði ég undir sænginni og beið þess að svefninn viki úr kroppnum á mér. Vekjaraklukkan hafði hringt en samt var ég ekki tilbúinn að vakna. Þótt úti væri niðamyrkur, hvergi ljósskíma, sá ég fyrir mér morgunljósið. Morgunljósið er fallegast á morgnana,  heimurinn er fallegastur á morgnana, allt er fallegast á morgnana. Nema mennirnir. Mennirnir eru algjörlega fallegastir eftir að halla fer af degi, þegar hin gráa myrkraslæða hefur lagst yfir heiminn og villir manni sýn. Fyrst eftir að nóttin er skollin á, hin koldimma nótt, sýna mennirnir sitt rétta andlit.

Þetta voru nú mínar gáfulegu hugsanir áður en ég fletti sænginni af mér og fór í sturtu. Undir vatnsbununni kom kannski meira vit í kollinn á mér því ég  fór að hugsa um hvort ekki væri gáfulegt að breyta svolítið tímatalinu, gera tilraunir.  Hvort ekki væri bara betra ef við vissum ekki þegar við vöknuðum á mánudegi, hvort vikan yrði 3 dagar; sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur eða 9 dagar; sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur, fimmtudagur, föstudagur, laugardagur, eftirdagur, fordagur. Eða sextán daga vika … Þetta mundi skekkja hina eilífu hringrás og gera hana egglaga, þríhyrnda eða stjörnulagaða. Ekki alltaf þessi sami meðalmennsku hringur sem byrjar á mánudegi og svo er aftur komin mánudagur og aftur og aftur mánudagur …. Sama vikan kemur aftur, nákvæmlega eins og sú fyrri eins og áskrift sem maður getur með engu móti sagt upp.

Ég kem þessu hér með á framfæri.

Dagurinn er byrjaður, sá fimmti í þessari viku, sem sagt  fimmtudagur og ég sit á kontórnum. Ég heyri í hátalarakerfi lestarstöðvarinnar hér fyrir utan að seinkun er á lestinni til Kaupmannahafnar. Lestinni til Helsingør er aflýst. Það rignir. Lestarfarþegarnir fyrir utan gluggann minn leita árangurslaust skjóls undan rigningunni og það er langt í næstu lest.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.