Ég gæti, eins og allir aðrir, velt mér upp úr einkar illgjörnum ummælum draugfullra þingmannanna. Væri það ekki að velta sér upp úr ógæfu annarra, væri það ekki merki um eigin heigulshátt, merki um smásálarskap og sama dugleysi. Ég vil segja að mér finnst leiðinlegt til þess að hugsa að lýðræðið virki ekki á þann veg að einmitt allt vandaðasta, samviskusamasta, heiðarlegasta og góðviljaðasta fólk landsins veljist til valdastarfa. Og hinir, sem ekki hafa eins fallegan og góðan huga, sinni öðrum minna mikilvægum störfum.
Því miður er það ekki svo.
Ég fékk örstutta sendingu frá félaga mínum á tölvupósti og niðurlag hennar kom mér á óvart því ekki vissi ég að trúin á Guð kæmi honum yfirleitt í huga. „Ég þarf á Guði að halda, svo Hann geti fyrirgefið mér.“ Það var enginn frekari skýring á að akkúrat þessi tilvitnun væri valin og tengdist ekki á neinn hátt hinum ógæfulegu þingmönnum, sem urðu sér til skammar. Sér. Ekki þingmönnum til skammar og ekki karlmönnum til skammar. Þeir urðu sér til skammar.
Og enn merkilegar þótti mér að annar vænn maður sendi mér í bréfi sínu eldsnemma í morgun, sem er föstudagur, þessa tilvitnun sem ég held að komi frá Lúkasarguðspjalli: „Dæmið ekki og þér munuð eigi dæmd verða. Sakfellið eigi og þér munið eigi sakfelld verða. Fyrirgefið öðrum …“
Ég reikna með að ég fái þessar sendingar með tilvísarnir í Guð og Bíblíu því ég er prestssonur og áhugamaður um trú og Guð og sálma og engla og hið góða i hjartanu …
En allt er þetta satt og rétt. Ekki skal maður dæma og maður skyldi fyrirgefa. Á sama tíma vildi ég óska þess að lýðræði þjóðar verði einhvern tíma svo fullkomið að allt vandaðasta, samviskusamasta, heiðarlegasta og góðviljaðasta fólk landsins veljist á valdastóla.