Espergærde. Mislangar hláturgusur manns snemma morguns.

Ný vika hófst með háværri símhringingu snemma í morgun. Þótt ég væri vaknaður og var að reyna að manna mig til að fara á fætur, dauðbrá mér þegar síminn hringdi. Ég leit á skjáinn og sá að númerið á skjánum var íslenskt. Ég svaraði og á hinum enda línunnar var hávær maður.

„Komdu, sæll og blessaður Snæbjörn og afsakaðu hvað ég hringi snemma. Ég var vonandi ekki að vekja þig.“
„Nei, nei … ég var vakandi.“
„Það var nú gott, mér fannst bara best að hringja núna á meðan hugmyndin sem ég geng með í kollinum er fersk. Ég vildi ekki bíða fram á hádegi og láta allt súrna í kollinum á mér ef þú skilur. Hahaha (stutt hláturgusa)“
„Fyrirgefðu … en hvert var aftur nafnið … ?“
„Nei, hahahaha, (langur hlátur) þekkirðu mig ekki … þekkirðu mig ekki lengur … hahahaha (langur hlátur). Fyrirgefðu að ég gleymdi að kynna mig … en réttast væri að þú fyndir sjálfur út úr því hver ég er því þú þekkir mig nú vel, kallinn minn …“

Þetta samtal varð ekki mikið lengra og aldrei uppgötvaði ég hver var á hinum enda línunnar. En hugmyndin sem hann bar upp, sem hann kynnti í einni stuttri setningu og þótti svo góð, fékk falleinkunn hjá mér … og ekki verður af minni þátttöku í þeim leik en kannski getur einhver annar gert eitthvað spennandi úr þessari hugmynd.

Nú sný ég mér að mínum eigin stússi. Ég er að reyna að finna nýja tónlist, lögin við vinnuna og læt Spotify velja tónlist af handarhófi í von um að ég verði fyrir uppljómun.

ps. Það er herradagur hér í Espergærde í dag og á matseðli kvöldsins er hakkebøf með lauk og kartöflustöppu. yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.