Espergærde 6+8+6+3+7+4+5+2+ 5+3+5+3+5=62 dagar

Dagurinn byrjar. Ég var í fastasvefni þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan 6:25. Ég var svo langt í burtu, í miðjum draumi, að það tók mig nokkur augnablik að átta mig á hvar ég var  niðurkominn og hver ég var. Ég var staddur í algjörri þoku, algjöru myrkri og ég vissi ekkert í minn haus.  Og svo kom nafnið til mín, mitt eigið nafn, eins og engill.

Ég hef einsett mér að lesa bók Johans Harstad (norski rithöfundurinn) um Max og Mischa í desember og janúar. Ég hef horft lengi á bókina en ekki treyst mér í að sökkva mér niður í skáldsöguna sem er svo ævintýralega löng. 1200 síður og letrið er minna en biblíuletur og hátt í 60 línur á hverri síðu. Þegar maður stendur fyrir framan óendanlega langar tröppur er víst best að taka eina tröppu í einu. Síðustu daga, áður en dagarnir byrja fyrir alvöru, hef ég sest niður í góða stólinn minn, kveikt á leslampanum fyrir ofan mig, hagrætt púðanum við bakið á mér. Kaffibollinn minn stendur rjúkandi og ilmandi á borðinu við hliðina á mér og ég les. Það tekur mig um það bil fjörutíu og fimm mínútur að lesa hvern kafla.  6+8+6+3+7+4+5+2+5+3+5+3+5= 62 dagar (45 min. x 62 kaflar = 2790 min. (46 kls. og 30 min.).

IMG_2941.jpg
Doðranturinn sem ég les núna. Einn kafla í einu.

Ég vinn heima í dag því ég er einn hér í húsinu. Ég ákvað þó að fá mér morgungöngutúr niður á höfn eftir morgunlesturinn, maður verður að hreyfa sig, hitta fólk og fá swing á hugann sem annars verður stífur og stjarfur ef maður viðrar hann ekki. Stundum óska ég að það væri meira fútt í kringum mig þessa dagana, mig vantar að hitta einhverja með smá fútt í sér. Þeir fáu sem ég rekst á eru fótboltafélagar mínir sem vilja heyra hvenær ég get byrjað að spila aftur. „Ég veit það ekki.“ er mitt eina svar og stundum langar mig að bæta við – af því að ég er prestssonur og hausinn er fullur af allskonar … „og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekkingu og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ Svona setningar koma upp í kollinn á mér af því að ég er prestsonur. En ég læt vera með að hrella fólk með þessum graut sem bobblar í höfðinu á mér.

Ég gekk út í skóginn hér í bæjarkantinum og fylgdist mér íkornunum hlaupa um og safna hnetum. Íkornar eru svo falleg dýr og ekki get ég áfellst íkorna fyrir að safna vetrarforða af slíkri græðgi sem hann gerir. Ég skil hann vel þótt ég viti að hann hefur meira en nóg af hnetum fyrir allan veturinn. Hann á aldrei eftir að komast í gegnum allar þessar hnetur. Ég áfellist hann ekki. Hann veit ekki hve langur veturinn verður. Ef þetta hefði verið maður sem hefði safnað svona óaflátanlega fyrir veturinn hefði ég áfellst hann. Mennirnir eru ekki fæddir með hæfileikann til að sýna meðbræðrum sínum umhyggju og samúð, ekki frekar en dýrin. Sósíalismi verður því aldrei náttúrlegt samfélagsform.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.