Espergærde. Ég er þrjár og hálf stjarna.

Dagurinn byrjar. Ég var of seinn á fætur, sennilega af því að ég kem mér aldrei til að sofa og á erfitt með að drífa mig á lappir. Rétt rúmlega hálfsjö var ég þó kominn niður en Númi var búinn að hertaka sturtuna. Ég þurfti því að bíða á nærbrókunum þar til röðin kom að mér. Að hugsa um tímann er það sama og að hugsa um dauðann.

Það er merkilegt með hugmyndir sem koma til manns á nóttinni. Einhvern veginn er það svo að góðar og slæmar hugmyndir sofa í sama rúmi og þeim verður svo auðveldlega ruglað saman á nóttinni. Það uppgötvaði ég meðan ég horfði út í myrkrið í gegnum eldhúsgluggann í morgun.

Æ, hvað það hlýtur að vera hræðilegt að vera rithöfundur á jólaflóðstímum. Sérstaklega þegar ætlast er til að maður promoteri sjálfan sig út í hið hlægilega. Sjá mig, hér er ég með bókina mína í göngutúr, sjá mig, hér er ég með bókina mína á bekk, á kodda, á borði, á styttu, á hvolfi, sjá mig, ég fékk 3 og hálfa stjörnu, ég er þrjár og hálf stjarna en það tekur bara enginn eftir því, allir hlakka þó til að lesa bókina mína … það segja allir …

Ég hef alveg gleymt að minnast á það að ég flýg til Íslands á morgun og verð yfir helgina. Þetta er aðvörun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.