Ég hef þeyst á milli staða innan bæjar sem utan í dag og ekki haft tíma til að sinna neinu öðru af viti en mínum húsasmíðum. Kom meira að segja við á Akranesi sem er menningarreynsla sem ég vildi ekki vera án. Fór þó að borða niður á Matbar í kvöld og ég verð að segja að það er besti veitingastaður Reykjavikur þessa dagana að mínu mati. Aðrir staðir sem ég hef borðað á, á mínum tíðu ferðum um Reykjavík, eru orðnir svo mengaðir af ferðamannamenningunni að sálarneistinn er næstum horfinn. En það titrar enn taug á Matbar.
Á göngu eftir Laugaveginum á leiðinni aftur á hótelið í kvöld stoppaði bíll mitt á veginum og út í gegnum hliðarrúðuna var hrópað: „Ertu ekki alveg viðþolslaus… Klæjar þig ekki í fingurna að vera með í jólatörninni.“
Ég kíkti inn í bílinn til að athuga hver ætti þessa gólandi rödd. Þarna í bílnum sat Egill Helgason, búralegur og með glott á vör, ásamt öðrum úr fjölskyldunni sinni.
„Nei, mig langar ekki að vera þátttakandi í bókavertíð. Ég er feginn að standa fyrir utan,“ sagði ég.
„Ég er búinn að lesa allar bækur, nema eina …“
„Og hvaða bók er best?“
„Ja … erfitt að segja … Bergsveinn er ansi góður.“