Reykjavík. Sundlaugarferð

Það er svo sem ekki frá svo mörgu að segja. Hef sinnt Hvalfjarðarbyggingu og fjölskyldu í dag. En ég fór í sund í morgun í Vesturbæjarlauginni. Þar sem ég er nánast ósyndur, eða þannig, held ég mig alltaf að mestu í heita pottinum. 

Þegar ég  var nýsestur þar niður með Davíð mér við hlið kallar á mig kankvís maður sem er ofan í sama heitapotti: „Snæi! Hæ!“ Ég horfði á manninn, sem var auðvitað á sínum sundfötum og með blautt hár og rjóður í kinnum af hita frá pottinum. Ég gat ómögulega komið fyrir mig hver maðurinn var. „Er ekki allt í lagi með þig?“ spyr svo maðurinn. Hann sá örugglega kindarsvipinn á mér.  „Jú, blessaður og sæll,“ svara ég. Og bæti við til að gera þessa stund ekki of neyðarlega. „En er ekki allt í fínu lagi með þig?“
„Jú, allt í fínu hjá mér.“
Heilinn á mér var á yfirsnúningi. Ég vissi bara ekki hver þessi maður var. Augnablikin liðu og svo kom nafnið, Páll Baldvin Baldvinsson. En þá var það um seinan hann var kominn í hrókasamræður við sessunaut sinn. 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.