Espergærde. „Borð svigna undan kræsingum.“

Um níuleytið á hlákublautum morgni um miðjan desember nálgaðist Helsingørlestin brautarstöðina í Espergærde á fullri ferð. Svo þétt var þokan og dimm að erfitt var að sjá út um lestargluggana lengra en tíu skref til hvorrar handar. Svona gæti ég haft upphaf færslu dagsins og þá með vísun í bókmenntirnar. Síðan hugsa ég: Hví skyldi ég vísa í litteraturinn? Dagbókarskrif þann 11. desember hef ég bara á minn veg. Engar bókmenntir: Dagurinn byrjar. Ég tala við sjálfan mig. Fyrir framan mig á skrifborðinu er teikning á gulum miða sem tilheyrir gömlu verkefni sem ég hætti við fyrir nokkru. Ég hengi samt teikninguna á tölvuna mína svo hún blasi alltaf við mér. Í gær setti ég endapunkt á annað verkefni – það gerði ég með nokkrum trega –. Ég loka einu verkefni, ég loka öðru verkefni. Í dag ætla ég að búa til pylsur, í dag verð ég pylsugerðarmaður á lestarstöðinni í nokkra klukkutíma og framleiði væntanlega – eða eins og mér var kennt að segja: ef Guð lofar – nokkur hundruð pylsur með sterku kryddi. Að kjötiðnaðardeginum loknum er mér boðið til veislu hjá söngkonunni hérna í bænum. Hún getur ekki stöðvað sig þegar hún byrjar að búa til mat, hún vill sífellt bæta við enn einum rétti, meiri mat, fleiri réttir, svo borðið svignar undan kræsingum eins og Enid Blyton mundi lýsa veisluborðinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.