Espergærde. Sálarinnar eilífi Black Friday

Undanfarna daga hefur mér verið tíðhugsað til mömmu Sollu vinkonu minnar. Mamma Sollu hafði litla aukabúgrein; eigin skartgripaframleiðslu. Ég verð því miður að taka fram að þetta voru ljótustu skartgripir sem ég hef augum litið. Skordýraskartgripirnir, kölluðum við þá, vinir Sollu. Við hefðum svo sem aldrei velt þessari skartgripaframleiðslu fyrir okkur nema af því að mamma Sollu notaði hið minnsta tilefni til að draga fram skartgripina og reyna að selja þá. „Er þetta ekki alveg upplagt fyrir mömmu þína, Snæi?“ Ekkert var það afmæli, poppkornskvöld, vídeókvöld, partý þar sem mamma Sollu hóf ekki skyndilega upp söluræðu sína fyrir hina gersamlega óseljanlegu skartgripi. Með tímanum varð söluræða hennar æ örvæntingarfyllri og hjáróma, allt  varð vandræðalegt þegar skartgripirnir hennar komu enn og aftur upp á borðið. En hún lét það ekki stoppa sig og ég og vinir mínir létum okkur líka hafa þetta því Solla var skemmtileg, sæt og ilmaði eins og blómin í Paradís.

Ég minnist á þetta hér þar sem nú eru jólin að koma og margt minnir mig á örvæntingarblikið sem ég sá sem unglingur í augunum á mömmu hennar Sollu Ég fylgist með rithöfundunum (þar liggur áhugi minn núna) reyna að selja sig og bækurnar sem þeir hafa puðað mánuðum saman við að skrifa og þeir ganga lengra og lengra í örvæntingu sinni; verða æ meira hjáróma og trúðslegri í sölustarfi sínu. Á hinum harðsoðna manneskjumarkaði erum við ekki meira virði en niðurstaða eigin frammistöðu. Á facebook, instagram, twitter … tekur Black Friday sálarinnar engan enda. Hann varir að eilífu. Örvæntingartónn sölumanna eigin sálar er nístandi sársaukafullur. Pleeeeeease!

Nú er deiling, hrós á félagsmiðlum, og like hinn nýi vinatollur. Hver af vinunum er svo traustur og góður að hann deilir, skrifar hrós á facebook, like-ar og hver af vinunum deilir ekki og hrósar ekki? Var deilingin gerð af heilu hjarta eða var deilingin bara af skyldurækni; „vinur minn hefur skrifað bók – ég sjálf hef að vísu ekki lesið hana – en kannski er hún eitthvað fyrir þig?“

Það eru fáir rithöfundar sem geta leyft sér að halda sig til hlés. Láta eins og ekkert sé á meðan markaðsstormarnir geysa, like-in streyma inn og sölumaskínurnar mala. Ég hef dáðst að aðferð Ellenu Ferrante sem neitar að láta eigin persónu koma fram til að selja bók sína, hún treystir á að framleiðslan sé svo góð að hún selji sig sjálf. En þetta er ekki í takt við nútímann, nema að maður taki nú upp á að markaðssetja nafnleysið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.