Espergærde. Hvað drífur svona mann áfram?

Dagurinn byrjar. Ég opna gömlu, þreyttu útihurðina á lestarstöðinni og geng inn. Ég kveiki ekki ljósin heldur hraða mér í gegnum tóman biðsalinn og inn á skrifstofu mína. Legg frá mér töskuna, kveiki á kaffivélinni. Svo hengi ég vetrarúlpuna mína á snagann. 

Í eyrunum hef ég hvít heyrnartól sem ég legg á skrifborðið. Ég hafði verið að hlusta á Víðsjá á morgungöngu minni. Steinunn Sigurðardóttir talaði um nýja ljóðabók sína. Hún var einstaklega áhugaverð,  Steinunn, sem sagt. Sjaldgæft er orðið að heyra viðmælanda í útvarpi svo skýran í tali og hugsun. Ég hafði mikla ánægju af samtali Steinunnar og Jórunnar Sigurðardóttur; svo gaman hafði ég af setningum Steinunnar að ég endurtók þær upphátt, á sama hraða með sömu áherslum á göngu minni. Í gær hafði ég líka hlustað á annað samtal í útvarpi. Í þetta sinn  við Friðgeir Einarsson, hann er líka skáld, en það var ekki sérlega vel heppnað útvarpssamtal og þar var ekki við Friðgeir sjálfan að sakast heldur var umgjörð viðtalsins kannski ekki sem best. Friðgeir er viðkunnanlegur maður og sennilega líka vænn.

Ég kveiki á borðlampanum sem lýsir niður á bók sem ég er að lesa; bók Johans Harstad. Að öðru leyti er aldimmt á skrifstofunni. Kafli á dag. Undir miðjum lestrinum fæ ég skyndilega nær óslökkvandi löngun að lesa Beðið eftir Godot en ýti þeirri hugmynd frá mér. Þess í stað fer ég að hugsa um hver hafi verið fyrsta setningin í leikritinu. Og hvort var það Valdimir eða Estragon sem mælti þessa fyrstu setningu leikritsins. Um þetta hugsa ég eitt andartak og velti fyrir mér hvort ég ætti að setja af stað bókmenntagetraun hér á Kaktusnum: Hvernig hljómar fyrsta setningin í leikritinu Beðið eftir Godot? en ég hætti samstundis við það. Ég tala við sjálfan mig. Og ég man vel að það var Estragon sem sagði upphafssetninguna: Nothing to be done. Það er ekkert að gera. Þá er þeirri spurningu svarað.

Ég var fljótur að klára kafla dagsins enda var hann óvenju stuttur og ég ákvað því að lesa líka næsta kafla bókarinnar áður en ég vatt mér í verkefni dagsins. Mér finnst gaman að lesa bókina á þennan hátt; einn kafla í einu og samhliða les ég aðrar bækur (það geri ég á kvöldin); í gær gluggaði ég í smásagnasafn Guðrúnar Evu, las eina sögu sem mér fannst fyrirtak, svo er það Tranströmer. Í kvöld ætla ég að lesa bók Ragnars Jónassonar, Þorpið. Ég er forvitinn að lesa íslenskar metsölubækur. 

Ég tók með mér nesti í morgun; afgang frá kvöldmatnum í gær. Hádegismaturinn minn. Allt í einu var ég farinn að borða nestið mitt og það er enn morgunn,  klukkan ekki orðin níu. Ég borðaði vélrænt með hugann við annað en matinn og svo var nestisboxið allt í einu orðið tómt. Ég hristi hausinn yfir sjálfum mér. Stundum er erfitt að skilja hvað drífur mann eins og mig áfram. 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.