Espergærde. Bætt gáfnafar

Desember. Myrkasti mánuður ársins. Eða ef bókmenntirnar skulu enn á ný taka völdin hér á síðunni; desember myrkastur mánaða. Ég er búinn að lesa kafla dagsins, bókin hans Johans er góð og ánægjulegt að ég held mig við mitt plan um að lesa einn kafla hvern morgun. Það er gaman að lesa bækur á morgnana, ég hef aldrei verið duglegur að lesa svo snemma dags, maður er svo ferskur og móttækilegur. Eiginlega finnst mér ég verða gáfaðri af að lesa þessa bók Norðmannsins. Það er ekki oft sem ég fæ það á tilfinninguna að ég bæti gáfnafar mitt.

Ég ætti að taka Johan Harstad mér til fyrirmyndar, það er að segja hvernig hann skrifar. Ég gæti notað það hér á Kaktus – í mínu eintali – því hann helgar sig setningunum, helgar sig hinni flóknu hugsun sem er að baki einni setningu eða málsgrein. Það er til fyrirmyndar að hann tekur sér tíma til að orða nákvæmlega hin smáu en mikilvægu atriði í einni hugsun eða hugmynd. Það mætti ég taka mér til fyrirmyndar, því stundum er ég ekki í stuði til að fylla út í rammann þegar ég lýsi hugsun eða tilfinningu hér á Kaktus, heldur læt ég mér nægja að rissa upp útlínurnar. Ég á ekki við að ég skuli fara út í langlokuvaðal um ekki neitt, eins og sumir; bulla, heldur ætti ég að vera nákvæmur þegar ég lýsi hugsun. 

     Annars var bankað uppá hér á skrifstofunni í morgun og fyrir utan stóð einn af fótboltafélögum mínum, Henning, sem spurði hvort ég hefði tíma til að drekka kaffi með honum. Það hafði ég. Og svo drukkum við tveir kaffi saman. Hann sagði ekki margt svo ég varð að halda uppi samræðum með alls kyns skemmtisögum sem ég fóðraði hann með honum til upplyftingar. Sumar voru sannar, aðrar hálfsannar og svo nokkrar sem áttu sér engan stað í raunveruleikanum. Í hans huga voru allar sögurnar sannar en í mínum huga var skemmtunin aðalatriðið. 

Ég var einu sinni spurður að því hvaða bók ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki lesið. Það var blaðamaður sem spurði mig þessarar spurningar. Ég kom af fjöllum og ég svaraði honum að ég væri ekki mikið fyrir að skammast mín. Stuttu síðar kom til mín rithöfundur og spurði mig hvort ég kynni ekki að skammast mín. Hann hafði lesið svar mitt í dagblaði. Í dag sá ég nafn skáldsins fyrir tilviljun í sendibréfi frá árinu 2011.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.