Espergærde. „Ég þekki minn mann!“

Ég vaknaði snemma í morgun. Það er laugardagur og ég nennti hvorki að sofa né liggja í rúminu mínu svo ég læddist niður í eldhús og hellt mér upp á kaffi, las dagblöðin sem berast hingað á Søbækvej klukkan fimm á morgnana og las kafla dagsins í bók Johans Harstad.  Ég ákvað að því loknu að reima á mig skó og ganga niður á strönd, eða niður í fjöru, til að horfa á ljós skipanna sem sigla hérna í gegnum sundið milli Danmerkur og Svíþjóðar.

Það var nokkur skipaumferð. Þrjú stór farmskip sigldu hægt suður Eyrarsundið. Það rétt sást glitta í skipin undir siglingaljósunum í möstrunum. Þau sigldu hægt, jafnvel varlega, eins og þau flyttu brothætta drauma suður á bóginn. 

Það leið drjúg stund áður en ég sneri við og gekk sömu leið til baka. Á heimleiðinni sá ég framundan mér  – á horni Bakkegårdsvej og Stockholmsvej – kunningja minn, manninn með hundinn. Ég þekki líkamsbyggingu hans og hreyfingum úr langri fjarlægð og kaffibollinn sem hann heldur alltaf á er óbrigðult merki um að þar fari Peter (ég komst að því fyrir skömmu að hann heitir Peter). Hann veifaði mér með því að lyfta kaffibollanum því hin höndin hélt fast í hundaólina. Hundurinn hans vildi í aðra átt en hann sjálfur. 

„Ég get ekki haldið áfram, ég held áfram,“ sagði hann brosandi og leit niður á hundinn sinn. „Veistu hver sagði þessa frægu setningu?“
„Nei, ég veit það ekki …. Peter hundaeigandi?“ sagði ég og horfði spyrjandi á þennan lágvaxna mann sem sötraði á kaffinu sínu á og lét mig bíða eftir viðbrögðum.
„Nei, jú, nei … það var ekki það sem ég átti við,“ sagði hann loks. „ … þetta er fræg setning eftir Samuel Beckett, leikskáldið sem skrifaði Beðið eftir Godot.“
„Noh, OK … Hver er fyrsta setningin í leikritinu?“ sagði ég og notfærði mér að ég hafði verið að hugsa um Godot síðustu daga.
„Það er ekkert að gera…  Er það ekki fyrsta setningin?“
„Rosalega ertu vel að þér.“ Og ég var í alvöru hissa. Ég hafði heyrt að Peter væri einkabarn hjóna sem eiga stórt byggingarfyrirtæki, ættarfyrirtæki, og það malar gull. Ég veit að Peter vinnur í byggingarfyrirtækinu. Öll þessi Beckett þekking kom mér algjörlega í opna skjöldu. 
„Já, ég þekki minn Beckett!“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.