Espergærde. Móðgun, fullt starf.

Eftir kvöldmatinn í gærkvöldi hálfdottaði ég í djúpa stólnum mínum. Ég hafði sest þar inn í friðsemdina því ég ætlaði mér að lesa  í einhverjum af þeim mörgu bókum sem fylgja mér þessa dagana. En í stað þess að lesa (ég hélt þó á bók í hendinni) dottaði ég og þegar ég náði að rífa mig upp úr mókinu horfði ég bara tómlega út í loftið. Í þessu annarlega ástandi, sem ég finn mig þó sem betur fer sjaldan í, fór ég allt í einu að hugsa um Rósu Park. Já, ég fór að hugsa um Rósu Park, svörtu konuna sem neitaði að standa upp fyrir hvítum karli í amerískri rútu fyrir mörgum árum. 

Ég fór að hugsa um Rósu og að hún krafðist réttar síns, hún krafðist ekki réttar fyrir þann hóp sem hún tilheyrði; svört kona, heldur síns eigin réttar sem einstaklingur; að hún sem einstaklingur nyti sömu réttinda og virðingar og hvíti karlinn í rútunni – að hún hefði sama rétt og hann til að sitja á langferð sinni. Þetta var fyrir mögum árum. 

Kannski fór ég að hugsa um konuna Rósu Park og hennar eigin réttindabaráttu því ég las í dagblaði í gær um nýjan baráttuhóp sem kallar sig FRONT og berst gegn því sem kallast særandi tal eða bara móðganir í æðri menntastofnunum í Danmörku. 

Eitt af þeim málum sem FRONT hefur tekið til meðferðar er kvörtun kennara yfir því að ein lína í þeim ljóðum sem sungin eru í skólum sem kallast æðri menntastofnun Dana hljóðar svo: „Den danske sang er en blond pige.“ Kennarinn kvartaði við FRONT því henni fannst þessi ljóðlína særandi, fannst hún niðrandi og ekki í lagi að slíkt væri sungið, sjálf væri hún brúnhærð. Ég skyldi satt að segja ekki af fréttinni hver það var sem átti að verða móðgaður, brúnhærðar konur í Danmörku, ljóshærðar konur í Danmörku, eða konur almennt í Danmörku… eða kannski bara karlmenn sem voru leiðir yfir því að vera ekki tengdir hinum danska söng. 

Ætli barátta brúnhærðu konunnar gagnist mannkyninu á sama hátt og barátta Rósu Park? … Það verður tíminn að skera úr um, hugsaði ég mitt í þessu kvöldmóki. Svo kom einhver Biblíukennd hugsun upp í hugann: Baráttan er ekki við menn af holdi og blóði heldur við heimsdrottna heimsku og myrkurs. Og vonsku. Er þetta ekki úr Biblíunni?

Það er sunnudagur og framundan er koncertdagur inn í Kaupmannahöfn. Ég vona að kórsöngvararnir hegði sér almennilega og velji söngva sem ekki er ætlað að móðga einhverja hópa samfélagsins.  

ps. Heyrði Gauta Kristmannsson flytja hugvekju um bók Eiríks Arnar Norðdahl, Hans Blær í Víðsjá (sennilega gamall þáttur). Ég varð nokkuð hrifinn af sjálfum dómnum, sem bæði var vel fluttur og áhugaverður. Á bókinni fékk ég kannski ekki meiri áhuga (efni bókarinnar höfðar bara ekki til mín) en dómurinn var fínn. 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.