Vikudagar og helgar án afláts. Fimm, tveir, fimm, tveir, fimm, tveir; taktur sem létt er að dansa við. Nú er helgi að baki (tveir) og við taka vikudagarnir (fimm), sá fyrsti, mánudagur og ég er þegar sestur á skrifstofustólinn minn þótt klukkan sé ekki orðin átta. Ég tala við sjálfan mig.
Um helgina hef ég fengið nokkur sendibréf og sannarlega segi ég yður að fátt gleður mig meira þessi misserin en að fá slíkar bréfasendingar. Mér finnst þá að munað sé eftir mér og bréfsendingarnar eru eins og klapp á kollinn, kumpánlegt slag á bakið eða þétt handtak. Gefið og yður mun gefið verða. (Í einu bréfi helgarinnar var ég kallaður séra Snæi. Ég veit ekki alveg af hverju, en ég geri ráð fyrir að allt mitt Biblíutal hafi ekki farið fram hjá öllum.)
Ég held áfram að lesa minn daglega kafla í bókinni hans Johans Harstad. Í dag ræddi aðalpersónan um Ísland. Vinur hans hafði heyrt plötu Bjarkar (DEBUT) og varð svo hrifinn að hann taldi tónlistina hafi breytt lífi hans. Svo velta þeir félagar fyrir sér Íslandi:
„Mig langar að koma til Íslands. Við ættum að fara þangað, finnst þér það ekki? Það gæti verið gaman.“
„Ég veit ekki hvort það sé svo margt sem hægt er að gera þar. Fólk situr víst mest innandyra og fylgist með veðurhorfum.“
„Við getum setið með þeim.“
„En þar fæst víst byltingarkennd súkkulaðitegund.“
„Ha? Hvað?“
„Súkkulaði sem heitir Svefnlausar…“
Í gær var ég spurður af félaga mínum sem ég hitti inni í Kaupmannahöfn hvar ég sæi sjálfan mig eftir tíu ár. „Hvað verður þú að gera eftir tíu ár, árið 2028?“ spurði hann bara allt í einu út í bláinn án þess að líta mig, en ég leit á hann, og hann lokaði augunum og klóraði sér annars hugar við gagnaugað. Ég svaraði umhugsunarlaust: „Ég verð að leika. Ég verð að vinna sem leikari.“ Þetta kom beinustu leið frá sálinni; engin ritskoðun bara beinustu leið frá sálinni og út um munninn.