Espergærde. Gullnáma nýrra tækifæra

Í gær heimsótti ég – inni í höfuðstaðnum – einn af vinum mínum hér í Danmörku. Hann er fullur af því sem hann kallar „angst“. Ég kann samt mjög vel við hann og finnst gaman að umgangast hann með allar hans fyndnu öfgar. Hann er hræddur við allt mögulegt og þó aðallega við að allar þær tilviljanir, sem maður mætir og tekst á við hvern dag, falli honum ekki í hag. Í huga hans eru öll þau símtöl sem hann hefur ákveðið að svara ekki ævintýri sem hann hefur misst af, fólk sem hann hefur vanrækt eru töpuð viðskiptatækifæri sem bjóðast ekki aftur, veislur sem honum hefur verið boðið í en hann hefur ákveðið að mæta ekki, hefðu reynst honum, ef hann hefði mætt,  gullnáma nýrra tækifæra … en hann mætti ekki  … Dagarnir eru fullir af tilviljunum. „Æ, nú er farið að rigna, er það ekki dæmigert fyrir mig?“ segir hann. 

Mér bæði til nokkurrar undrunar en líka til gleði fékk ég í gær þrjú bréf frá þremur ólíkum útgefendum bóka; erindin voru ólík. En ég tók eftir hvað allir voru bjartsýnir og glaðir. Jólabóksalan hafði ekki brugðist eins og margir höfðu óttast. 

Ég er farinn að hlusta á Cat Power og lesa Grænmetisætu Han Kang. Ég er ánægður með hvort tveggja. 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.