Kastrup. Leiðin til Hakuban

Ferðadagur og það á vetrarjafndægrum – ég er þegar farinn að hlakka til vorsins. Framundan er flug til Japans; CPH -> Tokyo -> Hakuba. Í Hakuba verðum við á skíðum næstu fimm daga.

Ég fyllist alltaf aukakrafti þegar bjartari tímar eru framundan; meiri birta, meira ljós. Undanfarnar vikur hef ég verið hálffúll út í þá þýðingu sem ég er að vinna að, sennilega vegna hálfsvartsýni minnar á íslenska bókamarkaðinn – ég var hættur að trúa því að bókin, sem ég strita við, dögum og mánuðum saman, að þýða hefði lesendur og því væri þýðingin tilgangslaus. Vinnan og streðið væri engum til gleði eða góðs. En nú snerist mér hugur, eða ég fór að hugsa málið á annan hátt; ég skyldi bara njóta þess að þýða – því mér þykir oftast mjög gaman að snúa texta frá einu tungumáli til annars – og hætta að hugsa um lesendur eða enga lesendur. Gleðin við þýðinguna skyldi nú vera brennidepli huga míns.

Ég las í morgun viðtal við Bergsvein Birgisson í Morgunblaðinu. Ég hef mikla trú á Bergsveini, hann er góður rithöfundur. Ég var hrifinn af því sem hann sagði um þá miklu kreddu sem tröllríður allri nútímahugsun: vaxtakreddan. Allt á að vaxa á hverju ári; meiri velta, meiri hagnaður, stærri fyrirtæki, meiri hagvöxtur … Ég hef aldrei séð hvað þetta á að gagnast fólki til lengdar, því þessi hugsun eyðileggur nefnilega oft meira en hún byggir upp. Ég, úr mínu mikla frelsi, fylgist með fólki hringsnúast á sífellt meiri hraða um hugmyndir sínar og vinnustaðarins um hin eilífa vöxt og enginn verður sérstaklega glaður þótt menn ná hinum eftirsóknaverða vexti þetta árið, næsta ár bíður með kröfu um vöxt… Og enn verður mér hugsað til stanslausu hraðametana hans Húberts Nóa.

Á morgun vakna ég í Japan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.