Hakuba. Ísí písí

Fyrsti dagur á skíðum í japönskum snjó. Snjórinn hér í Japan á að vera sérlega góður skíðasnjór, púðursnjór. En í dag rigndi uppi í skíðabrekkunum svo þar var allt heldur nöturlegt. Japan er heldur nöturleg á veturna. Hér eru fá sígræn tré og því er öll tré lauflaus og ber. Náttúran er ansi visin og dapurleg.

Við búum á hálfniðurníddu hóteli í skíðabænum Hakuba. Þetta er lítill, skrýtinn bær með 8000 íbúum uppi í fjöllunum við vesturströnd Japan. Hótelið er í eigu ástralsks manns og japanskrar konu hans. Hún virðist vera harðdugleg og sívinnandi; var í eldhúsinu í allan gærdag eftir að við komum og í morgun var hún komin með ryksuguna á loft. Ástralski eiginmaðurinn er meira fyrir að tala við gestina og drekka bjór með þeim. Hann skilgreinir sig sem drykkjumann „I love drinking.“ Hótelið man sinn fífil fegurri. Hér þyrfti að taka til hendinni til að hressa upp á vistarveruna, bæði að innan og utan. Víða liggur bara eitthvað drasl í gluggakistum og borðum og hillum; gamlir dvd diskar eru á víð og dreif, gömul úrelt raftæki eru enn upp í hillum eða á borðum þótt það hafi ekki lengur neina funktion, stólar sem eru ónýtir er komið upp við vegg og bíða þess að drykkjumaðurinn taki sig til og keyri þá á haugana. Allt þetta setur frekar dapurlegan svip á hótelið. En í mínum huga er þetta allt í lagi; hér dveljum við ekki nema til að sofa og geyma skíði.

Ástralski eigandinn heitir víst Tony og hefur ráðið til sín yfir aðalvertíðina (sem hófst nú um miðjan desember og nær fram í maí á meðan skíðatímabilið er) nokkra unga Ástrala í kringum tvítugt til að sinna þjónustustörfum. Þeir hafa sem sagt rétt hafið störf og kunna ansi fátt. Ég pantaði espresso í morgunmatnum í morgun og einn af ungu áströlsku drengjunum sem var að afgreiða okkur horfði undrandi á mig: „espresso?“
„Já, espresso-kaffi. Er það ekki á boðstólum?“
„Bíddu aðeins.“ Og svo kallaði hann inn í eldhús og spurði kokkinn: „Eigum við espresso?“ Kokkurinn kom hneykslaður fram og hristi hausinn yfir drengnum og fór að hella upp á kaffi fyrir mig. Það er í rauninni sama hvað maður spyr þá um, þeir vita ekki neitt, en eru fúsir til að hjálpa. „Bíddu aðeins, ég spyr.“ Er algengasta svar þeirra. En allt er „ísi písí“ hjá þessum hressa ástralska þjónaliði eða „no worries, mate, easy.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.