Hakuba. Jólamáltíðin 2018.

Gleðileg jól, Snæi minn, segi ég við sjálfan mig þegar ég horfi út á japanska snjóinn hér fyrir utan hótelgluggann. Það er annars ekkert sem minnir mig á jólin nema að ég sé á dagatalinu á tölvunni minni að það er sá 24. desember í dag og klukkan er að nálgast jól. 17:10.

Mér verður hugsað til Íslands þar sem fólk er að vakna til jólamorguns. Ætli ég haldi ekki næstu jól á Íslandi, hugsa ég, kannski get ég haldið jól í húsinu í Hvalfirði. Ég kíkti á webcam við Tjörnina. Það var dimmt í Reykjavík og enginn á ferli nema einn strætó sem keyrði löturhægt eftir Lækjargötunni og í honum voru ekki farþegar.

Ég á erfitt með að sofa hér í Japan; ligg og les meðan aðrir sofa. Ég er byrjaður að lesa íslenska metsölubók, Þorpið eftir Ragnar Jónasson. Mig langar líka að lesa metsölubækur, mig langar að lesa þær bækur sem almenningur vill lesa. Ég er rúmlega hálfnaður með bók Ragnars og ég finn að bókin er ekki minn tebolli, ekki frekar en bók Yrsu Sigurðardóttur, Brúðan. Kannski eru metsölubækur ekki minn tebolli, glæpasögur höfða sjaldnast til mín, en ég ætla að klára bók Ragnars eins og ég kláraði bók Yrsu.

Hér bak við mig (ég sit við barinn á hótelinu) er ástralski vinur minn, ísí písí að leggja á borð. Hann á von á matargestum á hótelveitingastaðnum. Hann er búinn að segja mér frá því að í gær varð hann svo fullur að hann varð að skilja bílinn eftir í hinum enda bæjarins og ganga heim. Ísí písí er ekki að leggja á borð fyrir mig því ekki ætla ég borða hér í kvöld. Við borðum á sushi á sushistaðnum hér í Hakuba-bænum. Það verður jólamáltíðin árið 2018. Sushi í stað hangikjöts.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.