Himinn var blár yfir Japan í dag og ekki hægt að óska sér betra skíðafæris; sól, logn. Skíðsvæðið er kannski ekki sérlega stórt ef borið er saman við stóru skíðabrekkurnar í Ölpunum en hér eru breiðar og langar skíðabrautir.

Hótelið hér sem hýsir mig í Japan kallast White Horse og ég held að herbergin séu átta. Starfsfólkið allt eru ungir Ástralar sem vinna undir stjórn eigandans Tony. Rekstur hótelsins er kannski ekki alveg dæmigerður. Mér skilst að unga fólkið fái nánast ekkert borgað en borðar á hótelinu án endurgjalds, hefur sitt herbergi á hótelinu og áfengi er „heavily discounted“. Niðurstaða þessa kjarasamnings er sú að unga fólkið situr í barnum frá klukkan fimm og fram á kvöld og er orðið svo hresst við kvöldmatarleyti að gestir hótelsins voga sér varla inn á barinn.
Einn gestanna hér mr. Information, eins og við köllum hann, reynir þó að krækja sér í bjór við og við. Mr. Information er líka Ástrali. Hann er einhentur og er hér á skíðum. Mr. Information er ansi leiðinlegur. Eftir 5 sekúndna kynni er hann búinn að segja manni hvaðan hann kemur, hvar hann býr, að hann sé fráskilinn, vinni í Singapúr, eigi tvær stelpur, hafi komið á þetta sama hótel, White Horse, sl. þrettán ár til að fara á skíði, í ár kemur stór hópur með honum, 26 manns, en það er fyrst þann 28. desember sem hinir koma … Svona velta upplýsingarnar upp úr honum með þykkum áströlskum hreim.
Ég er haldinn furðulegu jet-lagi. Ég vakna klukkan tvö að nóttu eftir þriggja tíma svefn og sama hvað ég reyni get ég ekki sofnað. Ég ligg vakandi fram á morgun. Ég finn að kroppurinn á mér hefur engan áhuga á að sofa. Ég er glaðvakandi en þreyttur. Eftir að hafa bylt mér í tvo klukkutíma í nótt og reynt að kreista fram svefninn gafst ég upp og tók ég fram iPadinn minn og fór að lesa Ragnar Jónasson, Þorpið. Ég er hálfundrandi á framvindu þeirrar sögu og finnst mér hún ekki alltaf sérlega sannfærandi. Þegar ég var orðinn þreyttur á að lesa Þorpið las í veftímaritinu Kjarnanum og þar fann ég grein eftir Auði Jónsdóttur og Ragnar Helga Ólafsson um ýmislegt sýndist mér; facebook, hvað segja like um gildi og réttmæti innleggs, karókí, leynilegar upptökur, tjáningarfrelsi … ég bara náði ekki í mínu vankaða ástandi hvað þau vildu segja með þessari grein. Kannski voru þau að reyna að segja að þau gætu orðið næstu fórnarlömb upptökutækis og samtöl þeirra á fimmta rauðvínsglasi gætu birst á prenti daginn eftir. Það væri ekki gaman fyrir þau.
Ég las í gær, haft eftir einhverjum heimspekingi, að aðeins væri að velja um tvennt: að gangast við því hvað maður væri amóralskur eða vera hræsnari.