Yamanochi. Heimsókn hvæsandi kattar

Ég svaf í nótt. Jeeyyy! Það var mikill léttir að vakna ekki fyrr en klukkan sex í morgun, gegnhvíldur og endurnærður. Mig dreymdi meira að segja minn klassíska draum; ég var að gera upp iðnaðarhúsnæði með tilheyrandi kaos og ringulreið.

Við erum nú komin í smábæ, Yamanochi á leið okkar til Tokyo. Gistum hér í nótt. Okkur tókst að komast upp í brekkurnar í morgun – áður en við tókum rútuna hingað – og renndum okkur á skíðum til klukkan ellefu.

Mr. Information var heldur betur þurfandi í morgun. Bað um að fá að setjast hjá okkur við morgunverðarborðið og ekki gat maður neitað honum um það. Ég var ekki einu sinni búinn að fá kaffibollann minn (espresso, þeir bjóða upp á slíka kaffidrykki á hótelinu hans Tony) þegar hann settist með sína einu hönd upp á borði og hóf þessa furðulegu einræðu um kött sem hann hafði séð í gærkvöldi fyrir utan hótelið, vaðandi snjó upp í mitti. Hann hafði nefnilega verið á leið á barinn þegar hann sá köttinn út um hótelgluggann. Á barnum hafði hann drukkið nokkra bjóra (hann notaði drjúgan tíma í að reyna að rifja upp hversu marga bjóra hann hafði innbyrgt okkur til upplýsingar) með ástralska starfsfólkinu og farið svo upp á herbergi um klukkan 10:00. Þegar hann kom upp á herbergið lá kötturinn, sá sami og hann hafði séð ösla snjóinn fyrir utan, í rúminu hans. Og þegar hann ætlaði að ýta kettinum úr rúminu með sinni einu hönd hefði kötturinn hvæst illilega á hann og gert sig líklegan til að ráðast til atlögu. Mr. Information hafði brugðið á það ráð að sækja hóteleigandann Tony sem kom kettinum út. Mr. Information var mikið niðri fyrir.

Ég fékk, hingað til Japan, bréf frá manni sem hálfskammaði mig í bréfi sínu yfir einhverju sem ég átti engan þátt í. Hið furðulegasta mál sem ég veit satt að segja ekkert um. Ég hef ekki nennt að svara honum – kannski les hann þetta hér. Sumir eru eilíflega að skammast út í fólk, þekkta einstaklinga eða gamla kunningja, og ausa sínum fúkyrðum yfir þetta fólk, en sjálft leggur það ekkert að mörkum (og hefur aldrei gert) en er sífellt með útrétta lófa í betlunarskyni.

Það komu nýir gestir á hótelið í morgun og einn af þeim var svo sláandi líkur Steinari Braga, skáldinu, að ég var lengi í vafa hvort ég ætti að heilsa á íslensku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.