Tokyo. Að spegla sig í brennandi málefnum.

Annar dagur í Tokyo. Enn á tuttugustu og fjórðu hæð með útsýni yfir þrjá tennisvelli. Ég verð öfundsjúkur þegar ég horfi á tennisspilarana hér tuttugu og fjórum hæðum fyrir neðan mig. Mig langar svo að vera með. Þegar ég kem aftur til Danmerkur læt ég reyna á ökklann og spila tennisleik. Mig vantar sárlega boltaleiki í líf mitt.

Ég las áðan, á fréttavef, viðtal við formann félags bókaútgefenda á Íslandi sem var ánægður með nýafstaðna bókavertíð. Hann var spurður að því hvort hann hefði einhverjar skýringar á hvers vegna glæpasögur séu jafn vinsælar og raun ber vitni. Heiðar „telur ástæðuna að einhverju leyti þá að glæpasögur hér á landi séu skrifaðar af miklum metnaði. Þær spegla líka svo mikið samtímann og eru oft að fjalla um málefni sem brenna á okkur, það er auðvelt að spegla sig í þeim.“

Ég gat ekki annað en skellt upp úr þegar ég las þetta svar. Ég er nýbúinn að lesa vinsælustu glæpasögur ársins á Íslandi og ef ég miða við það sem ég hef lesið verð ég því miður að segja að ég veit ekki um hvað formaðurinn er að tala. Mér er annars vel við formanninn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.