Í Tokyo er 29. desember – afmælisdagurinn hennar Söndru – að kvöldi kominn. Hér sit ég eftir langa göngu eftir götum Shibuya hverfisins og hef komið mér fyrir á bar hótelsins sem er á 33 hæð og útsýnið yfir Tokyo er ævintýralega flott.

Ég held að ég sé búinn að ganga meira en 20.000 skref í dag. Ég, og við öll fjögur sem göngum saman, virkum eins og risar í þessari þvögu smávaxinna Japana. Í morgun fékk ég einmitt sent ljóð frá einum félaga mínum sem honum fannst hæfa veru minni í Japan.
Richard Brautigan
Ameríkumaður í Tókýó með bilaða klukku
Fólkið starir á mig –
Hér búa margar milljónir.
Hvers vegna gengur þessi undarlegi
Ameríkumaður um göturnar í ljósaskiptunum
með bilaða klukku
í hendinni?
Er hann raunverulegur eða aðeins ímyndun.Af hverju klukkan bilaði skiptir ekki máli.
Klukkur bila
Allt bilar.
Fólkið starir á mig og biluðu klukkuna
eins og ég haldi
á draumi.
Það mætti halda að ég gangi um með bilaða klukku því ég er enn þungt haldinn af jet-lagi frá því að við flugum til Japan fyrir meira en viku. Ég vakna alltaf um miðja nótt og get ekki sofnað aftur.
Áramótin nálgast og ég er farinn að móta lista ársins í höfðinu og nýtt áramótaheit.