Amos Oz er dáinn, skáldið frá Jerúsalem, sem margir Ísraelsmenn töldu svikara, Júdas, fyrir að leggja fram þá tillögu að Gyðingar og Palestínumenn skiptu landinu á milli sín og lykju þannig hinni fastlæstu og óleysanlegu deilu þjóðanna, sem hefur kostað alltof mikið blóð og kynt undir alltof mikið hatur og valdið alltof mikilli sorg.
Oz taldi deilu þjóðanna ekki snúast um trúarbrögð og hefði ekkert með trúarbrögð að gera. Deilan snýst um völd og peninga, eins og flestar mannanna deilur. Oz var ekki trúhneigður og var sjálfur viss um að Guð sjálfur hefði ekki sérlega mikinn áhuga á trúmálum. Hinir kristnu trúa að Messías hafi verið á meðal vor og hann eigi örugglega eftir að snúa aftur dag einn. Gyðingarnar aftur á móti trúa því statt og stöðugt að Messías hafi ekki stigið fæti sínum á jörðina en það eigi hann örugglega eftir að gera. Í kringum þennan skoðanamun hefur verið svo mikil reiði, ofsóknir, blóðsúthellingar, hatur … Kannski er bara best að bíða og sjá. Ef Messías kemur og segir: „Nei, sæl og blessuð og gaman að sjá ykkur aftur.“ Þá hafa kristnir rétt fyrir sér og Gyðingarnir verða að horfast í augu við það. Ef Messías segir aftur á móti: „Nei, komið þið sæl og blessuð, gaman að hitta ykkur,“ verða hinir kristnu að játa að þeim hafi skjátlast. Það þarf ekki að gera svo mikið úr þessu, bara bíða og heyra hvað meistarinn segir þegar hann loksins lætur sjá sig … eða hvað?
Ég hef bara lesið eina bók eftir Oz, Júdas, þar sem hann fjallar á sinn hátt um hlutverk svikarans. Það var góð bók og greinlegt hvað höfundurinn er öflugur.
Ég hef verið að velta fyrir mér áramótaheitinu í ár. Í fyrra langaði mig svo að vinna gull að ég setti eindregið stefnuna á gullverðlaun í ár og strengdi þess heit að vinna gull. Ég sé ekki fram á að vinna þau. Það eru bara tveir dagar eftir af árinu og ekki kem ég auga á hvaðan gullið mitt ætti að koma. Kannski eru áramótaheit jafnlíkleg að enda farsællega og hjónaband byggt á fylleríisbónorði. Ef maður bæði sér konu fullur væru líkurnar á að það hjónaband héldi líklega langt undir tuttugu prósent. Það sama má segja um áramótaheit. Líkurnar á að maður haldi áramótaheit eru samkvæmt vísindarannsóknum um það bil 17%.
Héðan frá sky-barnum á hótelinu þar sem ég sit nú þreyttur eftir gönguna um borgina, sé ég að sólin er að setjast – sennilega sú sama sól og er að stíga upp Reykjavíkurhimininn, þ.e.a.s ef ég reikna rétt út.
Ég les enn Johan Harstad, einn kafla á dag og nú þarf ég að finna aðra bók sem ég les meðfram Johanni og ég hef ákveðið að lesa Sigríði Hagalín sem mér sýnist hafa fengið fyrirtaks dóma.
