Tokyo. Árið 2018. Hvernig var það eiginlega?

Í dag hef ég leitt hugann annars slagið að því að nú er síðasti dagur ársins. Hér sit ég og það er farið að kvölda í Tokyoborg og aðeins fáeinar klukkustundir eftir af árinu 2018. Er þetta annus horribles eða annus felixes (eða hvernig maður segir gott ár á latínu)? Kannski hvorki né í mínum augum; ég hef barist við mína drauga en almennt getur maður ekki óskað sér betra lífs en míns lífs. Gamlársdagur, dagur uppgjöra. En ég er ekki tilbúinn með uppgjör. Ég get hvorki valið besta þetta eða versta hitt.

Samt, algerlega án undirbúnings, í freudísku flæði, læt ég vaða:
Bók ársins: Max, Mischa og Tet-offensiven. Johan Harstad. Þetta er sú bók sem hefur vakið mesta aðdáun og gleði hjá mér í ár. Bókin er að ég held 1600 síður og er full af eldi, krafti, mælsku, gáfum … það er ferskleiki yfir bókinni sem ég kann vel við.
Plata ársins: Wander, Cat Power. Ég fór að hlusta á Cat Power í desember svo hér er um nýja ást að ræða. Hvert hún endist verður tíminn að leiða í ljós. En sú plata sem ég hef spilað mest í ár er örugglega Chet Baker, París vol. 1
Músikuppgötvun ársins: Sampha. Ég hafði gaman af honum en nú er ég búinn að fá nóg.
Plebbar ársins: Pr. Einar Bárðarson og kona hans sem ég man ekki hvað heitir.
Bjór ársins: Humar DIPA, framleitt af Malbik/og fyrirtækinu hans Sölva.
Atvik ársins: Vindill úti á bekknum mínum rétt fyrir miðnætti í maímánuði 2018.
Borg ársins: París. París. París.
Listupplifun ársins: Ljósashow á hæstu byggingu heims í Dubai, við dúndrandi tónlistarundirleik og dansandi gosbrunna. Ég barðist við tárin og varð svo hryggur og miður mín yfir mönnunum. Sjaldan hefur listsýning haft þessi djúpu áhrif á mig. Sennilega var ekki ætlunin að ég yrði svona dapur.
Tónleikar ársins: Lúðrasveitin í Vico del Gargano þegar hún gengur eftir götum þorpsins með ítalska lúðrasveitarlög.
Veitingastaður ársins: Henne Kirkeby krá á Jótlandi. Ekki oft hef ég smakkað jafngóðan mat og þjónarnir, gamlir bóndadurgar frá Vesturjótlandi, kunnu sitt fag. Skemmtilegir en hlédrægir.
Fótboltaleikur ársins: Manchester City móti einhverjum. Manchester City spilar bara skemmtilegan fótbolta.
Vonbrigði ársins. Ökklameiðslin. Ég hef ekki spilað með fótboltaliðinu mínu síðan í ágúst og ég hef ekki getað spilað tennis. Ég er alltaf haltur.
Samtal við ókunnugt fólk: Ég hef átt nokkur ansi góð samtöl í ár við hálfókunnugt fólk. Sennilega er mitt besta samtalið við manninn með hundinn um trúmál.
Neyðarlegasta atvik ársins: Ég er hættur að þekkja fólk á götu. Mér þótti neyðarlegt að þekkja ekki Pál Baldvin í sundlaug vesturbæjar þegar hann heilsaði mér kumpánlega.
Morgunmatur ársins: Hafragrauturinn minn með ólífuolíu frá LaChiusa.
Eftirsjá ársins: Mig hefur vantað takt í ár. Ég sé eftir taktinum sem ég hafði.
Vonbrigði ársins 2: Get ekki orðað þau.
Söknuður ársins: Ég sakna að byggja eitthvað nýtt upp frá grunni.
Hugmynd ársins: Að byggja sumarhús í Hvalfirði
Áramótaheit ársins: Ég hef sagt það áður. Áramótaheit eru ekki líkleg til að rætast og sennilega læt ég það vera að heita einhverju um áramót. Ég er enn í fýlu yfir að fá ekki gullverðlaun 2018 eins og ég hafði heitið við síðustu áramót.
Blogg ársins: Kaktusinn yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.